„Skil ekki þessa leyndarhyggju“

Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri.
Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er gott að fá þessar upplýsingar. Okkur var sagt að þetta væru viðkvæmar upplýsingar. Ég skil ekki þessa leyndarhyggju,“ segir Bergur Þór Ingólfsson faðir einnar þeirra stúlkna sem Robert Downey, sem áður hét Ró­bert Árni Hreiðars­son, braut á og hlaut dóm fyrir árið 2008.

Gögn sem varða um­sókn Róberts um upp­reist æru voru birt í gær á vef dóms­málaráðuneyt­is­ins í kjöl­far niður­stöðu úr­sk­urðar­nefnd­ar upp­lýs­inga­mála. Í umsókninni lagði hann fram meðmæli frá þrem­ur vin­um til margra ára. 

„Að umsagnir æskuvina hans sé hluti af þessu ferli er stórundarlegt. Þessar lýsingar eru rosalegar líkt og um dýrling sé að ræða,“ segir Bergur Þór. Þeir sem skrifuðu meðmælin höfðu þekkt Róbert í marga áratugi og störfuðu sem kennari og fulltrúi sýslumanns í Reykjavík.

„Þetta eru líka menn sem gegna ábyrgðastöðu gagnvart börnum. Það er eins og þeir hafi ekki skoðað alvarleika málsins og skrifað upp á þetta í hugsunarleysi. Miðað við hvað brotaferilinn var langur og skipulagður og hann spilaði með börn,“ segir Bergur Þór. Þetta sýnir skýrt fram á hversu fáránlegt þetta ferli er og skýrt dæmi um að það er rangt, að sögn hans.  

Bergi Þór þykir ámælisvert að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafi ekki viljað skoða málið og þessar upplýsingar og sagði að þær skiptu ekki máli. „Þau viðbrögð skerða traust mitt til hennar um hvernig talað hefur verið um málin fyrir okkur. Það eru þau sem eiga að komast að þessum brotalömum. Það eru brotalamir í þessu kerfi, það ríkir leyndarhyggja og rosaleg tregða. Við hefðum getað fengið að vita þetta fyrir þremur mánuðum síðan og enginn skaði af því hlotist. Fólk þarf að fá upplýsingar,“ segir Bergur Þór. 

Í lok ágúst sat Berg­ur Þór Ing­ólfs­son fund alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar þar sem rætt var um uppreist æru. Sig­ríður Á. And­er­sen dóms­málaráðherra segir að unnið sé að breyt­ingu á lög­um um uppreist æru. Stefn­t er á að leggja frum­varpið fram á haustþingi. 

„Frábær ræða hjá forsetanum“

Við þingsetningu í gær hvatti Guðni Th. Jó­hann­es­son, for­seti Íslands, þing­menn til að end­ur­skoða lög um upp­reist æru. Hann benti einnig á að skil­greina þurfi bet­ur í stjórn­ar­skrá völd og ábyrgð for­seta Íslands. Lögum samkvæmt þarf hann að skrifaði undir uppreist æru einstaklinga.  

„Mér fannst þetta frábær ræða hjá forsetanum. Ég tek hatt minn ofan fyrir honum að hafa hlustað og tekið mið af því sem við og fólkið í landinu hefur sagt um þetta mál,“ segir Bergur Þór. Hann bendir á að það sé „fáránlegt“ að forseti Íslands þurfi að veita uppreist æru án þess að hafa eitthvað um málið að segja og án þess að fá tækifæri til að kynna sér málið. 

Þau tvö bréf sem Róbert skrifaði þar sem hann sótti um uppreist æru voru bæði stíluð á forseta Íslands og innanríkisráðuneytið. „Hann fær ekki þessi bréf til yfirlestrar. Þetta er markleysa. Þetta er í stjórnarskránni og þessu þarf að breyta,“ segir Bergur Þór og bætir við: „Það þarf líka að breyta því að dæmdir barnaníðingar fái ekki að starfa sem lögmenn.“

Vongóður um breytingar

Bergur Þór er vongóður um að Alþingi eigi eftir að breyta þessu til batnaðar sérstaklega eftir gærdaginn þegar Alþingi var sett og upplýsingarnar bárust. Hann segir upplýsingarnar hafi varpað ljósi á málið og núna séu fleiri púsl komin inn í myndina. Hins vegar er málið sérstakt að því leyti að það tók langan tíma að afgreiða það. Af hverju fékk hann ekki neitun eins og aðrir? spyr Bergur Þór. Þrátt fyrir þessi gögn sem voru birt í gær vantar enn upplýsingar um hvers vegna málið lá svona lengi inni í ráðuneytinu og svo líka rökstuðninginn fyrir því að honum var veitt uppreist æra.  

„Ég vil fá einhver gögn um það því svo margt hefur verið sagt. Það er eins og fólk geti bara sagt: „Svona er þetta“. Einhverju er varpað fram og það reynist ekki rétt. Maður spyr sig hvort þetta sé svona í stjórnsýslunni því það eitthvað skrýtið við þetta og hún er ekki eins og hún á að vera,“ segir Bergur.

Hann tekur fram að fjölmiðlar hafi staðið sig vel í þessu máli og þrýst á að fá upplýsingar. 

Ég bað þingið um að taka við málinu og þrátt fyrir allt treysti ég því að það breyti lögum um uppreist æru, kom í veg fyrir að dæmdir níðingar geti starfað sem lögmenn og skoði stjórnarskrána,“ segir Bergur Þór og bætir við: „Ef þessi mótstaða við upplýsingu heldur áfram og leyndarhyggja ríkir þá erum við er hvergi hætt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert