Sigríður fyrst til að spyrna við fótum

Jón Gunnarsson samgönguráðherra.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er mikilvægt að halda því til haga í umræðu um uppreist æru að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur haft síðan í vor beiðni, á borði sínu, um uppreist æru fyrir dæmdan sakamann. Hún kynnti sér þá strax þær reglur sem um þetta gilda og í framhaldi neitaði að skrifa undir,“ segir Jón Gunnarsson samgönguráðherra á Facebook-síðu sinni í kvöld. Sigríður hafi þá sett af stað vinnu til þess að undirbúa breytingar á reglunum.

„Þetta er nokkrum vikum áður en þessi mál koma í almenna umræðu. Eins og fram mun koma á næstu dögum hafa allir dómsmálaráðherrar í áratugi unnið eftir þessum reglum og henni var greint frá því að hún gæti tæplega vikist undan því að samþykkja erindið,“ segir hann. „Það er því dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem fyrstur ráðherra ákveður að spyrna við fótum og hefja vinnu við breytingar á því regluverki sem um þessi mál gildir.“

Þetta segir Jón að staðfesti enn og aftur það ábyrgðarleysi sem alþingismenn hafi sýnt með því að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu vegna þessara mála. Komið hefur fram í fréttum að engar umsóknir um uppreist æru hafi verið afgreiddar í dómsmálaráðuneytinu í tíð fráfarandi ríkisstjórnar, en þær umsóknir sem mest hafa verið í umræðunni að undanförnu, vegna Roberts Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar, voru afgreiddar á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert