Vísað af slysadeild vegna leiðinda

Landspítali – háskólasjúkrahús í Fossvogi.
Landspítali – háskólasjúkrahús í Fossvogi. mbl.is/Ómar

Lögreglan hafði ekki önnur úrræði en að vista karlmann í fangaklefa vegna óláta og leiðinda. Maðurinn var í vímu þegar hann var handtekinn um eittleytið í nótt og verður í fangaklefa þangað til af honum rennur.

Tilkynnt var um manninn öskrandi og með ólæti úti á götu í austurhluta Reykjavíkur um eittleytið í nótt. Fljótlega kom í ljós að skömmu áður hafði þurft að vísa honum út af slysadeild Landspítalans vegna leiðinda. 

Maðurinn virtist ekkert hafa lært af því og réð lögreglan ekkert við hann. Þar sem ekki var vitað hvort nokkur vildi taka við manninum var ákveðið að vista hann í fangaklefa og er hann þar enn.

Seint í gærkvöldi tilkynnti ferðamaður til lögreglu að farsíma hans og peningaveski hafi verið stolið á hóteli í vesturborginni. Skömmu síðar handtók lögreglan þjófinn sem skilaði símanum og veskinu. Þar sem eigandinn gerði engar kröfur á þjófinn var hann látinn laus. 

Í nótt barst lögreglu tilkynning um að flugeld (kínverja) hafi verið kastað inn um bréfalúgu á íbúð í Breiðholti. Engan sakaði og litlar skemmdir urðu á íbúðinni. Ekki er vitað hverjir voru þarna að verki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert