Stöðvuðu för bílaþjófs

Bílaþjófurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð.
Bílaþjófurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. mbl.is/Golli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra stöðvaði för bílaþjófs í grennd við Bústaðaveg fyrr í kvöld.

Vegfarandi sem var á ferð í grenndinni og varð vitni að atvikinu segist í samtali við mbl.is hafa séð lögreglubíl og bíl sérsveitarinnar aka á eftir bílnum í forgangsakstri og að annarri lögreglubifreiðinni hafi verið ekið utan í hvíta Nissan-bifreið til að stöðva för hennar. Þá hafi sérsveitarmaður rifið bílstjórann út úr bifreiðinni.

„Glöggir lögreglumenn tóku eftir bíl sem hafði verið tilkynntur stolinn og eltu hann þarna og stoppuðu hann,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Að sögn Jóhanns Karls var bílaþjófurinn handtekinn og hefur verið færður á lögreglustöð til yfirheyrslu. Hann kveðst ekki vita hvort lögreglubifreið hafi verið ekið utan í stolna bílinn, hann hafi aftur á móti verið tjónaður og var því fluttur af vettvangi með kranabíl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert