Skýringin ekki sú að fólk neiti að bólusetja börnin sín

AFP

„Þetta er ekki gott. Það verður eitthvað að gera í þessu, þetta má ekki ganga svona,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Í skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum á Íslandi á árinu 2016 kemur í ljós að þátttaka í bólusetningum við 12 mánaða og 4 ára aldur hefur dregist saman milli ára.

Haldi sú þróun áfram má búast við því að hér á landi fari að bera á sjúkdómum sem ekki hafi  sést hér á landi um árabil.

Þórólfur segir að ekki liggi ljóst fyrir í hverju vandinn liggur en þróun í þessa átt sé ekki af hinu góða. 

„Skýringin er ekki sú að fólk sé að neita að mæta í bólusetningar vegna þess að þátttakan er ágæt við þriggja mánaða og fimm mánaða aldurinn. Hún er 95-96% sem er bara alveg þokkalegt,“ segir Þórólfur. Hann nefnir þó einkum tvennt sem hugsanlega kunni að skýra dræmari þátttöku við 12 mánaða og 4 ára aldur.

Innköllunarkerfið ef til vill ekki nógu gott

„Annars vegar að þarna eru krakkarnir komnir á þann aldur að þeir kannski eru veikir og geta ekki mætt á réttum tíma og svo einhvern veginn gleymist það og innköllunarkerfið hjá heilsugæslunni er kannski ekki alveg nógu fullkomið og það þarf að kíkja á það,“ útskýrir Þórólfur.

Þá kunni einnig að vera að bólusetningar séu ekki nægilega vel skráðar inn í grunninn en efast Þórólfur þó um að það sé skýringin þar sem að skráningar virðast vera í lagi við hin aldursskeiðin.

„Það getur vel verið að raunveruleg þátttaka sé eitthvað skárri en þetta en við bara vitum það ekki. Þetta eru þær tölur sem blasa við okkur úr grunninum og vekja hjá okkur áhyggjur. Sóttvarnalæknir þarf að skoða þetta í samvinnu við heilsugæsluna og við erum með ákveðnar áætlanir í gangi um að reyna að kanna þetta betur með heilsugæslunni,“ segir Þórólfur.

Mislingar ekki út úr myndinni

Meðal þess sem athygli vekur í skýrslunni sem birt hefur verið á vef Landlæknisembættisins er að ef fram heldur sem horfir geti blossað upp bólusetningarsjúkdómar hér á landi sem ekki hafa sést um árabil. Í því samhengi er minnst á mislingafaraldur sem geisi í Evrópu og gætu stök tilfelli mislinga sést hér á landi ef þátttöku í bólusetningum hrakar.

„Það gæti komið hérna upp tilfelli af mislingum. Ég held nú að sá faraldur yrði aldrei stór einfaldlega vegna þess að þátttakan er, bara á síðasta ári hjá 18 mánaða börnum, um 91% eða eitthvað svoleiðis en hún mætti klárlega vera betri,“ segir Þórólfur. „Við þurfum að standa okkur betur ef að við ætlum ekki að fá hingað einhverja litla faraldra, sem við gætum gert.“

Senda nafnalista til heilsugæslunnar

Athygli vekur einnig að svo virðist sem nokkur munur sé á þátttöku milli landshluta. Þórólfur kveðst ekki kunna skýringar á því en það sé eitt þeirra atriða sem verði að leita skýringa á hjá heilsugæslunni.

Sóttvarnalæknir mun á næstu dögum bregðast við með því að taka út úr gagnagrunninum nafnalista yfir óbólusett eða vanbólusett börn og koma áleiðis til viðeigandi heilsugæslustöðva sem í framhaldinu geta haft samband við þá einstaklinga sem við á.

Þá geta foreldrar sett sig í samband við heilsugæsluna og fengið það sem upp á vantar ef þeir telja að börn þeirra vanti bólusetningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert