Icelandair dæmt til að greiða dánarbúi flugmanns 68,8 milljónir í skaðabætur

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í júní sl. þess efnis að Icelandair ehf. beri að greiða dánarbúi fyrrverandi flugmanns félagsins 68,8 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna ólögmætrar uppsagnar árið 2010.

Flugmaðurinn lést 7. mars sl. og tók þá dánarbúið við aðild að dómsmálinu.

Manninum var sagt upp störfum í kjölfar meintra brota á starfsskyldum en hann var sagður hafa verið drukkinn og viðhaft kynferðislega áreitni og ógnandi tilburði í flugi á heimleið frá Kaupmannahöfn eftir að hafa lokið fraktverkefni í Belgíu.

Ferðaðist hann sem almennur farþegi um borð í vél Icelandair.

Starfsráð komst að þeirri niðurstöðu í september að hegðun flugmannsins og framkoma hefði falið í sér mjög alvarlegt brot á starfsskyldum hans og að brotin feldu í sér heimild til handa Icelandair til að víkja manninum úr starfi.

Þá tilkynnti Flugmálastjórn Íslands manninum viku síðar, 7. október 2010, að á grundvelli læknisvottorðs sérfræðings í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum um að maðurinn sýndi einkenni járnofhleðslu, uppfyllti hann ekki kröfur sem gerðar væru til 1. fl. heilbrigðisvottorðs atvinnuflugmanna.

Hæstiréttur komst að hins vegar að þeirri niðurstöðu 13. febrúar 2013 að riftunin á ráðningarsamningi flugmannsins hefði verið ólögmæt.

Dóminum þótti ljóst að stefnandi hafi sýnt af sér ókurteisi og hegðað sér með þeim hætti að ekki sæmdi stöðu hans. Þótt sýnt hefði verið fram á að hegðun stefnanda hefði verið óviðeigandi þótti hún ekki hafa verið þess eðlis að réttlætt gæti fyrirvaralausa uppsögn úr starfi. Hafi stefnda borið að veita stefnanda áminningu ef framganga hans í starfi gaf tilefni til þess áður en honum yrði sagt upp,“ segir í héraðsdóminum sem féll í júní 2016.

Í því máli sem Hæstiréttur dæmdi í dag fór maðurinn fram á greiðslur frá Icelandair sem miðuðu að því að „gera stefnanda sem líkast settan fjárhagslega og ef honum hefði ekki verið vikið ólöglega úr starfi.

Til að svo mætti verða bæri félaginu að greiða bætur sem jafngiltu „fullum launum stefnanda í veikindaforföllum í alls 13 mánuði, frá 1. október 2010 til 31. október 2011 að telja, og bætur er jafngildi óskertri tryggingafjárhæð samkvæmt skírteinistryggingu flugmanna, hvoru tveggja í samræmi við kjarasamninga milli FÍA og stefnda frá 10. febrúar 2010 og 19. júlí 2011.“

Maðurinn taldi að lýst tjón bæri „í öllum tilvikum að telja sennilega afleiðingu af hinni saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda.

Icelandair byggði kröfu sína um sýknu á því að maðurinn ætti enga fjárkröfu á hendur sér. Var því m.a. mótmælt að Hæstiréttur hefði alfarið hreinsað manninn með þeim hætti að félagið hefði ekki mátt segja honum upp strafi með greiðslu þriggja mánaða uppsagnarfrests. Þá væri það „meginregla í skaðabótarétti að sá sem krefjist bóta með réttmætum hætti eigi ekki að hagnast á tjóni sínu heldur að fá raunverulegt tjón bætt.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í júní að með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar frá 2013 hefði því verið slegið á föstu að sérstakar reglur um flugstjóra hefðu ekki gilt í umræddri heimferð frá Kaupmannahöfn og maðurinn því engar skyldur borið í henni. Þá hefði ekki verið sannað að maðurinn hefði neytt áfengis í óhófi. Enn fremur hefði Icelandair aldrei veitt manninum áminningu. Félagið hefði ekki axlað þá sönnunarbyrði um að skilyrði væru til að segja manninum upp.

Þar sem Icelandair mótmælti ekki tölulegum útreikningi kröfu mannsins var hún tekin til greina eins og hún var sett fram og félagið dæmt til að greiða dánarbúi mannsins 68,8 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum og 2 milljónir í málskostað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert