Prestur sakaður um kynferðisbrot

Grensáskirkja.
Grensáskirkja. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Fagráð kirkjunnar um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar hefur sent þrjú aðskilin mál á síðustu dögum til úrskurðarnefndar kirkjunnar þar sem meintur gerandi í kynferðisbrotamálunum er einn og sami sóknarpresturinn, sr. Ólafur Jóhannsson í Grensáskirkju í Reykjavík og fyrrverandi formaður Prestafélags Íslands. Ólafur var sendur í leyfi í sumar til að einbeita sér að betrun hjá sálfræðingi. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Sr. Ólafur hefur áður komið við sögu fagráðs þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota og hefur Fréttablaðið fengið staðfest að mál gegn honum hafi einnig verið rekið fyrir fagráðinu árið 2010.

„Ég sendi sr. Ólaf í leyfi í sumar því ég líð ekki svona mál á minni vakt,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. „Ég beitti þeim úrræðum sem lög og reglur segja til um, og eitt af því var að senda hann í leyfi. Ég veitti honum tiltal og sendi hann í meðferð hjá sálfræðingi.“

Ólafur neitar sök

Leyfið var til 15. ágúst síðastliðins og eftir það gekk hann aftur til starfa í Grensáskirkju. Agnes segist síðan hafa heyrt af hinum tveimur málunum í gær og því gripið strax til ráðstafana vegna þeirra. 

„Eftir þá meðferð var það mat sálfræðings að hann væri reiðubúinn til að koma aftur til þjónustu í kirkjunni. Ég hef í dag [í gær] fengið þær upplýsingar að fleiri mál hafi komið til úrskurðar­nefndarinnar og hefur hann farið í leyfi á meðan úrskurðar­nefndin er að vinna í málinu,“ segir Agnes.

Fyrsta málið á þessu ári kom inn á borð fagráðs síðastliðið vor. Brotaþoli, sem ekki vill koma fram undir nafni, staðfestir að hafa á þeim tíma sent málið til fagráðs þar sem meintur gerandi er sr. Ólafur. Í síðustu viku hafi málið síðan verið áframsent til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar. Fyrsti fundur úrskurðarnefndarinnar um málið er á dagskrá í dag.

Ólafur neitar því staðfastlega að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða í því máli. 

„Þar á í hlut kona sem ég hef talið til kunningja í ákveðnu samhengi. Ég tók utan um hana og kyssti hana á kinnina. Það er atvikið. Ég hélt það væri óhætt en það var greinilega ekki. Algjörlega fráleitt að kalla það kynferðislega áreitni að mínu mati, [þetta] var saklaus koss á kinn,“ segir Ólafur.

Hann lýsir því að hann sé mjög hryggur yfir því að málið sé komið á þennan stað. 

„Auðvitað var það rangt af mér að gera þetta ef það var óþægilegt fyrir hana. Það er engin spurning. En það var ekki kynferðisleg áreitni og tengdist engu slíku.“

Árið 2010 var einnig lögð fram kvörtun til fagráðs vegna sama prests. Ólafur játar því og segist hafa heyrt af því máli en mjög óformlega. Hann segist hafa hitt sálfræðing eftir það mál sem hafi snúist um að læra að setja sér mörk í samskiptum sínum við hitt kynið. 

„Ég hef alltaf hitt sálfræðing öðru hverju. En í mínum skilningi og skilningi íslenskra laga snýst það ekki um kynferðislega áreitni,“ segir Ólafur.

Hér er hægt að lesa frétt Fréttablaðsins í heild á Vísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert