„Þá fallast manni hendur“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Stjórnmálin hafa um margra ára skeið skort tiltrú meðal almennings. Við stjórnmálamenn verðum að líta í eigin barm og gera allt sem í okkar valdi stendur til að endurheimta það traust sem verður að ríkja til að lýðræðið þrífist. Hér er ég ekki að tala um stuðning við tiltekna stefnu, heldur almennt traust á að þrátt fyrir ólíkar skoðanir sé unnið heiðarlega.“

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Facebook-síðu sinni þar sem hún tjáir sig um atburði undanfarinna daga og vikna. Hefur hún skrifin á því að hún hafi verið að vandræðast með það hvernig hún ætti að fjalla um málið á samfélagsmiðlum enda „ótrúlega snúið að taka þátt í umræðu sem er svo heit, heiftarleg, ljót og margslungin.“ Hún ætlaði hins vegar að leyfa sér að tala út frá hjartanu.

„Ég forðast ekki erfið mál eða umdeildar ákvarðanir. En þegar maður les málsmetandi fólk halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn bjóði barnaníðinga velkomna, jafnvel að allt Sjálfstæðisfólk umberi ógeðslegustu tegund ofbeldis sem barnaníð er, að menn dreifi skilaboðum til umheimsins þar sem borið er saman afgreiðsla máls um uppreist æru og einum ógeðslegasta barnaníðing sögunnar þá fallast manni hendur,“ segir ráðherrann ennfremur.

Stolt af því að tilheyra samfélagi sem færist í rétta átt

Sjálf hafi hún barist fyrir bættu kerfi þegar komi að kynferðisbrotamálum. „Ég þekki fólk sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi, ég er sjálf af þeirri kynslóð sem hefur knúið fram breytingar og lagt þessi mál upp á borð en ekki troðið þeim undir teppi. Og er stolt af því. Það er erfitt að sitja undir því að maður sjálfur og fólk sem manni þykir mjög vænt um, starfar með, þekkir vel hvers gerðar er og treystir skuli einhvern veginn berjast gegn heilbrigðum breytingum í samfélaginu. Það er einfaldlega ekki rétt.“

Þordís segist ekki ætla að þykjast skilja hvað fólk sem hefur upplifað kynferðisofbeldi sjálft, eða á barn sem hefur þurft að þola slíkt, hafi þurft að ganga í gegnum. „Þeir sem hafa stigið fram og knúið fram umræðu og vitundarvakningu eiga heiður skilið. Það hefur ekki verið þeim auðvelt. Það hefur skilað árangri. Og ég er stolt af því að tilheyra samfélagi sem færist í rétta átt hvað þetta varðar og finn fyrir mikilli samstöðu um þær breytingar.“

Mikilvæg skref hafi verið stigin í þá átt á liðnum árum að bæta kerfið þegar kemur að kynferðisbrotamálum en af einhverju ástæðum hafi fyrirkomulagið í kringum uppreist æru setið á hakanum. Þórdís veltir því fyrir sér hvort svo hafi verið vegna þess hve fá í raun málin voru. „Sigríður Andersen er fyrsti ráðherrann til að boða skýra sýn á hvernig breyta eigi þessum 77 ára gömlu ákvæðum, sem standast ekki skoðun í nútímanum. Framkvæmd laganna er gagnrýniverð og um það eru allir sammála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert