Lækkun á fasteignaskatti eldri borgara

Bæjarbíó.
Bæjarbíó. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Afsláttur á fasteignaskatti ellilífeyris- og örorkuþega mun aukast umtalsvert á komandi ári, samkvæmt tillögu sem bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í gær.

Tekjuviðmið verða hækkuð og fleiri njóta afsláttar. Gert er ráð fyrir að hækkun viðmiða verði um 30% umfram 11,4% hækkun á launavísitölu árið 2016.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Þar kemur fram að hjón mættu hafa allt að 6.405.500 í laun til að njóta 100% afsláttar. Heildarlaun hjóna mættu nema allt að 6.851.500 til að fá 75% afslátt, allt að 7.297.700 til að fá 50% afslátt og allt að 7.742.300 til að fá 25%. Afsláttur fyrir einstaklinga er veittur frá 5.013.00 (100%) að 5.347.200 (25%).

„Með þessum aðgerðum er verið að gera fleiri eldri borgurum í Hafnarfirði kleift að búa lengur í eigin húsnæði en ella og tel ég að sveitarfélagið sé að sýna ákveðna forystu í þeim efnum,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, í tilkynningunni.

„Það er ánægjulegt að í ljósi bættrar afkomu og árangurs af hagræðingaraðgerðum undanfarinna ára sé með þessum hætti hægt að láta bæjarbúa njóta þess og mun breytingin án efa koma mörgum vel.“

Bæjarráð samþykkti einróma að vísa tillögunni til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert