Heil öld í starfi hjá Hrafnistu

Hópur starfsmanna Hrafnistu sem unnið hafa í 25 ár eða …
Hópur starfsmanna Hrafnistu sem unnið hafa í 25 ár eða lengur var heiðraður í gærkvöldi. Fyrir miðri mynd eru Guðlaug Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Hreggviðsdóttir með blómvendi. Aðrir starfsmenn sem heiðraðir voru halda á rós. Pétur Magnússon forstjóri segir áherslu lagða á mannauðinn. mbl.is/Golli

Mikil gleði ríkti á Björtuloftum í Hörpu í gærkvöldi þegar Hrafnistuheimilin heiðruðu 43 starfsmenn sem unnið hafa 25 ár eða lengur hjá heimilunum. Slíkar heiðranir fara fram á þriggja ára fresti. Hrafnista er með 1.200 manns í vinnu. Tveir starfsmenn, Þórdís Hreggviðsdóttir og Guðlaug Sigurbjörnsdóttir, eiga samanlagt 100 ára starfsafmæli.

„Mér finnst ég eiga fólkið“

„Ég náði 50 ára starfsafmæli í vor áður en ég hætti störfum hjá Hrafnistu,“ segir Þórdís og bætir við að hún hafi vitað hvað hún hafði á Hrafnistu en ekki vitað hvað hún fengi ef hún færi annað. „Eldra fólk gefur mér ofboðslega mikið. Það er yndislegt og mér finnst ég eiga allt þetta fólk,“ segir Þórdís og heldur áfram. „Þetta fólk gaf mér svo margt og sagði frá ýmsu sem ég vissi ekki. Ég græddi mikið á starfinu.“

„Ég elska eldra fólk og finnst yndislegt að geta gert eitthvað fyrir það. Látið fólki líða aðeins betur þegar ég er í vinnunni og líða betur síðustu æviárin. Það gladdi mitt hjarta óendanlega,“ segir Guðlaug sem hóf störf á Hrafnistu árið 1968.

„Vinnan hefur verið mín ástríða en ég er ekki að yngjast. Ég er að vinna fulla vinnu í Gerðubergi og var í hlutastarfi á Hrafnistu.“

Guðlaug ákvað eftir 50 ár að nú væri komið nóg. „Ég upplifi kynslóðaskipti hjá starfsfólki Hrafnistu. „Þegar ungu og hressu stelpurnar sem tala um stráka og síma komu til starfa þá fannst mér tími til kominn að hætta,“ segir Guðlaug hlæjandi.

Leggjum rækt við mannauðinn

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir Hrafnistuheimilin standa og falla með starfsfólkinu. Hann segir að hár starfsaldur skýrist væntanlega af því að starfsfólki líði vel í vinnunni og það hafi ánægju af störfum sínum.

„Við leggjum rækt við mannauðinn og markmiðið er að vinnan færi starfsfólkinu lífsgleði og lífsgæði á vinnustaðnum.“ Starfsmenn sem eiga styttra starfsafmæli fá afhentar viðurkenningar á vinnustað. Pétur leggur ríka áherslu á að afhenda viðurkenningarnar sjálfur. „Það gefur mér tækifæri til að kíkja inn á deildirnar og kynnast starfseminni þar á dag-, kvöld- og helgarvöktum,“ segir hann.

Þeir sem lengst starfa fara út

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, afhendir um 20 starfsmönnum á mánuði viðurkenningar á starfsafmælum. Starfsmenn Hrafnistuheimilanna eru 1.200 á sex heimilum á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Skýrar reglur eru um viðurkenningar á starfsafmælum.

Auk viðurkenningarskjals fá starfsmenn konfektkassa eftir þrjú ár í starfi. Eftir fimm ár leikhúsmiða fyrir tvo. Eftir 10 ár gjafabréf fyrir tvo út að borða. Eftir 15 ár eru afhent 30.000 kr. gjafakort. Upphæð kortanna fer stighækkandi við hver 5 ár sem bætast við starfsaldur. Eftir 40 til 45 ára starf fá starfsmenn 350.000 kr. gjafabréf fyrir utanlandsferð. Heiðursmótttaka er haldin fyrir starfsmenn með yfir 25 ára starf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert