„Þetta er aftur orðið gaman“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/RAX

„Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda en það má segja að það sem hafi ráðið úrslitum hafi verið þegar maður sá að mönnum sem eru núna ráðandi í flokknum væri það mikið í mun að losna við mig að þeir væru tilbúnir að fórna öðrum þingkosningunum í röð fyrir það,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, um þá ákvörðun sína að ganga úr flokknum. Vinnur hann nú að stofnun nýs stjórnmálaafls sem mun bjóða fram í komandi alþingiskosningum í næsta mánuði, og hyggst Sigmundur sjálfur sækjast eftir þingsæti.

Markmiðið um að koma honum frá „öllum öðrum markmiðum yfirsterkara“

Bendir Sigmundur á að fyrir ári hafi Framsóknarflokkurinn fengið verstu útreið í hundrað ára sögu sinni. „Það að þessi hópur hafi núna ætlað sér að efna til átaka næstu vikurnar þegar flokkurinn stendur veikt gaf mér til kynna að markmiðið um að koma mér og öðrum frá væri öllum öðrum markmiðum yfirsterkara hjá þessum hópi,“ segir Sigmundur og bætir við að hann hafi því þurft að spyrja sig til hvers hann væri að berjast fyrir því að vinna með fólki sem vildi fyrst og fremst losna við hann. „Það er ekkert voðalega skemmtilegt til lengdar og ekki líklegt til árangurs,“ segir hann.

Spurður um það hvaða fólk innan flokksins Sigmundur á við segir hann að það sé „fólkið sem endurheimti völdin yfir flokknum á flokksþinginu síðast, svipaður hópur og réði för í flokknum fyrir áratug, í kringum kosningarnar 2007.“

Ekki skemmtilegt í Framsóknarflokknum að undanförnu

Sigmundur kveðst því frekar hafa viljað byggja upp eitthvað nýtt, þó á grunni þess sem Framsóknarflokkurinn vann að á árunum 2009-2016. „Það er mikilvægt að hafa stað til að vinna áfram á þeim nótum sem við unnum árin 2009 til 2016, og líka hafa gaman af starfinu, en það hefur ekki verið neitt sérstaklega skemmtilegt í Framsóknarflokknum að undanförnu,“ segir Sigmundur og bætir við að töluvert margir hafi hvatt hann til að fara í þessa átt alllengi. 

Eins og greint var frá fyrr í kvöld hefur Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, sem var formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur þar til í dag, sagt sig úr flokknum, en hann er stuðningsmaður Sigmundar Davíðs. Spurður út í það hvort hann viti um fleiri sem hyggjast ganga úr flokknum svarar Sigmundur játandi. „Ég sé til dæmis að formaður Framsóknarfélags Þingeyinga er búinn að segja sig úr flokknum og ég á frekar von á að slíkum tilkynningum muni fjölga,“ segir Sigmundur.

Þá segist hann ætla að flestir Framsóknarmenn séu mjög ósáttir við atburðarás síðastliðins eins og hálfs árs. Það sé þó ekki þar með sagt að þeir muni allir ganga úr flokknum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Björn Ingi Hrafnsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Björn Ingi Hrafnsson. Eva Björk Ægisdóttir

Ýmsir hópar að skoða þessi mál

Eins og greint hefur verið frá hefur Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík, boðað stofnun nýs flokks, Samvinnuflokksins. En er um sama stjórnmálaafl að ræða og Sigmundur Davíð hefur boðað stofnun á?

„Það eru margir hópar búnir að vera að skoða þessa hluti og það má segja að hópurinn sem var að starfa í Framfarafélaginu hafi unnið töluvert mikla vinnu með það í huga að til þessa gæti komið, sérstaklega eftir að varð ljóst í hvað stefndi með mig, þá fóru menn á fullt þar,“ segir Sigmundur. „Svo hef ég séð að Björn Ingi er að tala fyrir því að það vanti borgaralega sinnaða hreyfingu í stjórnmálin og það er allt satt og rétt hjá honum – en þetta eru ýmsir hópar sem eru að spá í þessi mál greinilega núna.“

En það er þá ekki útilokað að þessir hópar renni saman á einhvern hátt, eða hvað? „Ég hef haft þá sýn að vera tilbúinn að vinna með hverjum sem er tilbúinn að fara í þessi mál á þeim forsendum sem þetta snýst um, það er að segja að vera í pólitík á grundvelli málefna, að vinna að róttækum umbótum og vera með róttækt umbótaafl og flokk sem er tilbúinn að fara gegn kerfinu, treystir sér til að standa vörð um það sem er rétt – líka þegar það er erfitt,“ segir Sigmundur. „Þeir sem hafa sambærilega sýn og ég á pólitík eru vonandi einhverjir, og vonandi sem flestir, til í að taka þátt í þessu með mér.“

Mun ganga upp innan tímamarkanna

Sigmundur segir markmiðið vera að bjóða fram í komandi þingkosningum, og hann muni sjálfur sækjast eftir þingsæti fyrir hönd hins nýja flokks. Spurður um það hvort hann telji fimm vikur nægilega langan tíma til að koma hinum nýja flokk á koppinn segir hann: „Þetta er auðvitað knappur tími en það er það mikill fjöldi fólks búinn að hvetja til þess og bjóðast til þess að vinna að því að skipuleggja vinnu þessa hóps að það verður hægt að klára þetta innan þessa tíma.“

Er mikil spenna hjá þér fyrir framhaldinu? „Já, þetta er aftur orðið gaman,“ segir Sigmundur glaður í bragði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert