Þorgrímur hættir líka í Framsókn

Þorgrímur Sigmundsson.
Þorgrímur Sigmundsson.

Þorgrímur Sigmundsson, formaður Framsóknarfélags Þingeyinga, hefur sagt af sér og jafnframt sagt sig úr Framsóknarflokknum. Þetta gerir hann í kjölfar frétta af því fyrr í dag að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráðherra, hefði sagt sig úr flokknum. Í færslu á Facebook-síðu sinni lýsir Þorgrímur yfir fullum stuðningi við nýtt framboð Sigmundar Davíðs.

„Nú er ljóst að einn mesti leiðtogi sem Framsóknarflokkurinn hefur haft á að skipa til áratuga hefur tilkynnt að hann hyggist yfirgefa flokkinn og skyldi kannski engan undra eftir það sem á undan er gengið. Þrátt fyrir að hafa rifið flokkinn upp úr bæði lægð og stöðnun og leitt hann til mikilla sigra, bæði í kosningum og í viðureign við hið alþjóðlega fjármálakerfi hefur flokkseigendafélagið aldrei tekið hann í sátt. Enda tók hann ekki við skipunum og lét ekki stjórnast af einhverjum þeim hagsmunum sem þar kunna að leynast,“ skrifar Þorgrímur.

Segir hann hinn almenna Framsóknarmann hafa veitt Sigmundi ítrekað afgerandi umboð í Norðausturkjördæmi, og hefði eflaust gert það aftur ef til þess hefði komið. Enda flestum ljóst að Sigmundur Davíð er yfirburðastjórnmálamaður. Ekki síst þegar þarf að fást við fjármálageirann. En til þess mun þó ekki koma þar sem Sigmundur Davíð hefur tilkynnt stofnun nýs stjórnmálaafls þar sem lausnamiðað fólk úr öllum áttum mun fylkja sér á bak við þá róttæku skynsemishyggju sem Sigmundur Davíð stendur fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert