Alvarlegt bílslys fyrir austan

Bílveltan varð á hringvegi 1, við afleggjarann til Vopnafjarðar.
Bílveltan varð á hringvegi 1, við afleggjarann til Vopnafjarðar. map.is

Ungur maður kastaðist út úr bifreið sinni í alvarlegu bílslysi á Austurlandi síðdegis í dag. Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum var ökumaðurinn meðvitundarlaus þegar lögreglu bar að garði og var fluttur með sjúkrabíl til Vopnafjarðar. Þaðan var hann fluttur með sjúkraflugi, líklega suður til Reykjavíkur.

Lögreglan segir í samtali við mbl.is að hún hafi ekki frekari upplýsingar um líðan mannsins en upplýsingafulltrúi Landspítalans gat engar upplýsingar veitt mbl.is.

Maðurinn, sem að sögn lögreglu er Íslendingur undir tvítugu, velti bílnum til móts við afleggjarann að Vopnafirði, á þjóðvegi 1, á svokallaðri Háreksstaðaleið. Slysið varð í aflíðandi hægri beygju en bíllinn fór út af veginum hægra megin.

Maðurinn var einn á ferð þegar slysið varð en að sögn lögreglu er bíllinn mjög mikið skemmdur. Tildrög slyssins eru óljós en lögregla segir að góðar aðstæður hafi verið til aksturs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert