Hjóluðu í hlíðum Hverfjalls

Hverfjall.
Hverfjall. mbl.is/Rax

Landverðir í Mývatnssveit fóru á dögunum til þess að afmá för eftir reiðhjól úr hlíðum Hverfjalls. Rakað var yfir förin eftir reiðhjólin sem voru ekki umfangsmikil. Í hlíðum Hverfjalls er öll umferð bönnuð en eingöngu er leyfileg að nota göngustíginn upp á fjallið.   

„Þegar fólk skilur eftir sig för þá sækja fleiri í það og nýir göngustígar geta fljótt myndast. Þetta er laust í sér og þá skríður þetta undan fólki og einnig geta nýjar leiðir opnast fyrir vatn,“ segir Davíð Örvar Hansson, starfsmaður Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit. 

Davíð tekur fram að umferð utanvegar hafi ekki verið stórt vandamál á svæðinu undanfarið en með aukinni umferð aukast líkur á umferð utanvega sem er óæskileg. 

Nýverið fór einnig gönguhópur upp Hverfjall án þess að fylgja göngustígnum. Þeir höfðu ekki lagt á bílastæðinu sem er þar líklega vegna þess að bílvegurinn var ekki góður, að sögn Davíðs.

Á bílastæðinu eru skilti sem sýna göngustíga á svæðinu og talsvert hefur verið bætt við merkingar á svæðinu.  



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert