Krufningu lokið og stutt í niðurstöður

Frá aðgerðum lögreglu við Hagamel á fimmtudag.
Frá aðgerðum lögreglu við Hagamel á fimmtudag. mbl.is/Golli

Krufningu á líki konunnar sem lést eftir líkamsrárás í Hagamel á fimmtudagskvöldið er lokið. Niðurstöðu er að vænta fyrir vikulok að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns.

Í samtali við mbl.is segir hann hins vegar að bráðabirgðaniðurstöður gætu legið fyrir á morgun eða hinn. Ekki liggi fyrir hvort eitthvað verði gefið út um dánarorsök konunnar þegar þær niðurstöður berast.

Grímur hefur sagt að vopni eða áhaldi hafi verið beitt við árásina. Hann vill ekki segja til um hvers kyns áhaldið hafi verið.

Maðurinn sem grunaður er um verknaðinn var á föstudag úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hann hefur verið í einangrun síðan hann var tekinn höndum.

Grímur segir að ekki sé útilokað að farið verði fram á lengra gæsluvarðhald yfir manninum en rannsókninni miði vel. Hann segir að ákvörðun um að fara fram á lengra gæsluvarðhald, og þá skilyrði þess, verði tekin undir lok vikunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert