Andlát: Einar Friðrik Kristinsson

Einar Friðrik Kristinsson.
Einar Friðrik Kristinsson.

Einar Friðrik Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, er látinn, 76 ára að aldri. Einar lést á líknardeild Landspítalans sl. fimmtudag, 21. september. Hann fæddist 21. ágúst 1941 í Vestmannaeyjum.

Foreldar hans voru Anna Einarsdóttir húsmóðir og Kristinn Friðriksson kaupmaður. Einar stundaði nám við Laugarnesskóla og lauk skólagöngu sinni með prófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1959.

Einar vann við skrifstofustörf hjá Klæðaverslun Andrésar Andréssonar til 1964 þegar hann keypti ásamt föður sínum heildverslunina Daníel Ólafsson ehf., síðar nefnd Danól hf. Í upphafi flutti fyrirtækið inn vefnaðarvörur en fljótlega bættust við matvörur. Einar starfaði lengst af sem framkvæmdastjóri Danól. Undir stjórn Einars var fyrirtækið leiðandi í því að stuðla að samkeppni og hagræðingu á innflutningi mat- og drykkjarvara með sameiningum og tæknivæðingu. Var vöruhús Danól í Skútuvogi eitt það stærsta og tæknivæddasta er það var byggt. Árið 2002 keypti Einar Ölgerðina Egil Skallagrímsson hf. og sameinaði áfengishluta Danól við Ölgerðina.

Einar var virkur í stjórnun Danól þar til hann lét formlega af störfum árið 2007 en allt fram á þetta ár sat hann í stjórn Ölgerðarinnar. Á yngri árum var Einar mikill sundmaður, æfði og keppti með Ármanni. Bringusund var hans aðalgrein og átti Einar fjölmörg met á þessum tíma. Einar sat í stjórn og byggingarnefnd Ármanns til nokkura ára. Hann var frá unga aldri virkur félagi í Lionsklúbbi Garðabæjar og Frímúrarareglunni þar sem hann meðal annars stofnaði stúkuna Njörð í Hafnarfirði.

Eftirlifandi eiginkona hans er Ólöf Októsdóttir röntgentæknir og lætur hann eftir sig fjögur uppkomin börn, níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert