Hætta á skriðuföllum

Ekkert lát er á rigningunni næstu daga.
Ekkert lát er á rigningunni næstu daga. mbl.is/Golli

Búist er við mikilli rigningu í nótt á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum. Vatnavextir þar eru því líklegir í nótt. Áfram er útlit fyrir talsverða eða mikla rigningu suðaustan til á landinu út vikuna og vatnavextir á þeim slóðum áfram líklegir. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

„Í dag verður í fyrstu suðaustan 13-18 m/s en hægari og suðlægari um hádegi. Rigning verður á Suðausturlandi og á Austfjörðum en úrkomuminna suðvestan til og úrkomulítið norðanlands. 

Fer að rigna um mestallt land seint í kvöld og gengur í suðaustan 15-20 m/s austan til en hæg norðvestlæg átt verður vestanlands. Mikil rigning verður í nótt á Suðausturlandi og á sunnanverðum Austfjörðum en úrkomuminna á morgun, en þó áfram talsverð rigning þar. Annars staðar á landinu verða víða skúrir og því fá allflestir landshlutar einhverja vætu.

Útlit er fyrir að suðaustlægar áttir verði ríkjandi fram yfir helgi með rigningu af og til um allt land en varla heill þurr dagur suðaustan til á landinu. Því má búast við vatnavöxtum á því svæði sem eykur einnig líkur á skriðuföllum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðaustan 13-18 m/s, en lægir með deginum. Rigning suðaustan til en úrkomuminna suðvestanlands. Hægari vindur og þurrt að mestu norðan heiða. Gengur í suðaustan 15-20 austan til seint í kvöld en mun hægari vindur vestanlands. Rigning um mestallt land og talsverð eða mikil rigning suðaustanlands. Vestlæg átt 3-8 og víða skúrir á morgun en áfram suðaustanstrekkingur austan til með talsverðri rigningu suðaustanlands. Hiti 8 til 13 stig.

Á miðvikudag:

Suðaustan 13-20 m/s á austanverðu landinu, annars breytileg átt og mun hægari vindur. Mikil rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum, en rigning með köflum í öðrum landshlutum. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á Norðausturlandi. 

Á fimmtudag:
Suðaustan 10-18 um landið austanvert, talsverð rigning og hiti 10 til 15 stig. Norðan 5-10 vestan til, rigning með köflum og hiti 6 til 10 stig. 

Á föstudag:
Austan 10-18 m/s. Úrkomulítið á Norðurlandi, en rigning annars staðar og talsverð rigning suðaustanlands. Hiti 7 til 14 stig. 

Á laugardag:
Suðlægátt 10-18 og rigning, en þurrt að kalla norðanlands. Hiti breytist lítið. 

Á sunnudag:
Stefnir í austlæga átt með rigningu, einkum austan til á landinu. Hiti 7 til 12 stig. 

Á mánudag:
Útlit fyrir norðlæga átt og rigningu en rigning með köflum sunnan til á landinu. Hiti breytist lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert