Hæstiréttur braut persónuverndarlög

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að birting Hæstaréttar á dómi frá 1999 hafi ekki samrýmst lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Í umræddum dómi er kvartandi nafngreindur auk þess sem þar er að finna upplýsingar um sjúkrasögu og fjármál viðkomandi.

Dómur Hæstaréttar varðaði skaðabótakröfu Páls Sverrissonar gegn vátryggingafélagi vegna umferðarslyss. Páll hefur áður tjáð sig um baráttu sína fyrir því að fá persónuupplýsingar máðar úr dómum en í júní sl. úrskurðaði Persónuvernd að vinnsla Héraðsdóms Reykjaness og Héraðsdóms Reykjavíkur á persónuupplýsingum um Pál við birtingu dóma á árunum 2013 og 2016 hefði ekki samræmst lögum.

Þá dæmdi Hæstiréttur ríkið til að greiða Páli 200 þúsund krónur í miskabætur í apríl sl. vegna þess að upplýsingar úr sjúkraskrá hans voru birtar opinberlega.

Í úrskurði Persónuverndar um hæstaréttardóminn frá 1999 segir m.a. að þrátt fyrir að kveðið sé á í lögum um birtingu hæstaréttardóma feli lögin ekki í sér heimild til birtingar viðkvæmra persónuupplýsinga á borð við upplýsingar um heilsuhagi. „Er þá jafnframt litið til þess að ekki verður annað séð en að birting þess dóms, sem hér um ræðir, á heimasíðu Hæstaréttar hefði haft sama gildi gagnvart almenningi þó að persónuauðkenni hefðu verið afmáð úr honum fyrir birtinguna.“

Með vísan til persónuverndarlaga og núgildandi regla um nafnleynd í útgáfu hæstaréttardóma komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að Hæstarétti bæri að afmá persónugreinanlegar upplýsingar um kvartanda úr þeirri útgáfu dómsins sem birtist á heimasíðu réttarins, þar á meðal meðfylgjandi héraðsdómi.

Persónuvernd sá ekki tilefni til að kæra málið til lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert