Fertugsafmæli SÁÁ fagnað í Háskólabíói

Fjörutíu ár eru í dag síðan SÁÁ-samtökin voru stofnuð.
Fjörutíu ár eru í dag síðan SÁÁ-samtökin voru stofnuð. Heiðar Kristjánsson

Afmælisfundur SÁÁ fer fram í Háskólabíói í kvöld kl. 20.00 í tilefni af 40 ára afmæli samtakanna. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verður sérstakur gestur afmælisfundarins, sem er opinn öllum. Viðeigandi er að fundurinn fari fram í Háskólabíói, en þar voru samtökin einmitt stofnum á fjölmennum borgarafundi 1. október árið 1977.

Á dagskrá fundarins í kvöld eru ræðuhöld og fjölbreyttur tónlistarflutningur, en fram koma Karlakórinn Fóstbræður, KK Band, Jóhanna Guðrún, Pálmi Gunnarsson og Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir spennandi tíma vera í starfi samtakanna. „Við erum búin að byggja nýja meðferðarstöð í Vík og flytjum eftirmeðferðina, sem hefur verið óslitið í 37 ár, frá 1980. Hún kemur öll í bæinn þegar að framkvæmdum er lokið og þá verður þetta allt öðruvísi aðbúnaður og öll tækniundur nútímans verða þarna til staðar, fyrir starfsfólk og sjúklinga.“

Næstu þrjá daga stendur SÁÁ svo fyrir ráðstefnu í sal Hilton Nordica við Suðurlandsbraut.  „Þetta verður mjög stór ráðstefna og hingað koma margir færustu sérfræðingar heims á sviði fíknlækninga og halda erindi og það er næstum því uppselt. Við erum mjög sæl og glöð hjá SÁÁ,“ segir Arnþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert