Maður stunginn í heimahúsi

Talsverður viðbúnar lögreglu var við Æsufell í kvöld.
Talsverður viðbúnar lögreglu var við Æsufell í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til á heimili í Breiðholti fyrr í kvöld en þar hafði maður hlotið stungusár í átökum. Lögreglan er enn á vettvangi og er málið á frumstigum rannsóknar. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins enn sem komið er. 

Karlmaðurinn sem var stunginn í kviðinn var gestur í íbúðinni í Æsufelli. Hann var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús en ekki er vitað um líðan hans. Lögreglan leitar nokkurra manna sem réðust inn í íbúðina og stungu hann. Þeir komust undan á bíl. 

Karlmaðurinn sem var stunginn hefur komið við sögu lögreglu og einnig hluti af meintum árásarmönnum, að sögn Gunnars Hilmarssonar aðalvarðstjóra lögreglu. Hann segir líklegt að atvikið tengist einhvers konar uppgjöri. 

Lögreglan er enn að störfum á vettvangi og ræðir við vitni til að fá mynd af atburðarásinni.  

Lögreglan var með mikinn viðbúnað við Æsufell í Breiðholti um klukkan 19 í kvöld. Sjúkrabílar og lögreglubílar og sérsveitarbíll voru á vettvangi.

Mbl.is heldur áfram að fylgjast með og uppfærir fréttina samkvæmt nýjustu upplýsingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert