Brotist var inn í skrifstofu Reykjavík Coworking Unit, sem staðsett er rétt við Hlemm, í nótt. Þaðan var stolið nánast öllu steini léttara frá hinum ýmsu listamönnum sem hafa vinnuaðstöðu í skrifstofunni. Tjónið hleypur á milljónum.
Bretinn Owen Hindley er einn þeirra sem varð fyrir barðinu á óprúttnu aðilunum. „Þetta hefur ekki verið skemmtilegasti morguninn í mínu lífi,“ segir Hindley í samtali við mbl.is.
Hann segir að allir þeir sem hafi glatað verðmætum í nótt séu sjálfstætt starfandi listamenn. Nokkrir þeirra hafi til að mynda unnið að hönnun tölvuleiks, sem nú sé í uppnámi.
Hindley rekur sjálfur svokallað sýndarveruleikafyrirtæki. Hann hefur glatað öllum sínum búnaði, nema fartölvunni.
„Við viljum láta fólk vita að það er ýmislegt þarna sem fólk getur ekki notað,“ segir Hindley og bendir á að símar sem var stolið séu lokaðir. Einnig sé búnaður sem hann noti við sýndarveruleika mjög sérhæfður og ekki fyrir hvern sem er að nota.
Hindley segir að ekki sé ákveðið hvort haldin verði fjáröflun vegna atburða næturinnar. Hann biðlar til fólks að hafa augun opin ef það sér grunsamlega hluti til sölu á hinum ýmsu sölusíðum á netinu.