„Segi menn svo að skuldaleiðréttingin hafi ekki virkað“

Þorsteinn Sæmundsson
Þorsteinn Sæmundsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Sæmundsson hélt í dag ræðu sem fulltrúi Miðflokksins á fundi Verkalýðsfélags Akraness og VR og vísaði til skuldaleiðréttingarinnar í því samhengi að skuldastaða heimilanna væri með besta móti í dag.

„Miðflokkurinn er skipaður fólki sem þegar er hart í baráttu gegn innlendum og erlendum fjármálaöflum og fólki sem hefur þorað að taka djarfar ákvarðanir en niðurstöðurnar af þeim hafa komið fram á þessum fundir þar sem að sést að staða heimilanna er nú með besta móti og segi menn svo að skuldaleiðréttingin hafi ekki virkað,“ sagði Þorsteinn.

Kosningar til að koma í veg fyrir sölu á Arion

Í ræðu sinni sagði hann að enn eigi eftir að endurskipuleggja bankakerfið og að það vildi svo til að nú væru kosningar haldnar á elleftu stundu til að koma í veg fyrir sölu á hlut í Arion. „Það er þannig að í þessari baráttu hafa einstaklingar innan Miðflokksins unnið margar baráttur en herslumunurinn er eftir," sagði hann.

„Það á eftir að taka bankakerfið og skipuleggja það til framtíðar og það vill svo til að kosningarnar núna eru haldnar á elleftu stundu til að koma í veg fyrir það að hluti Arion banka verði afhentur erlendum kröfuhöfum og til þess að tryggja það að ríkissjóður geti beitt forkaupsrétti sínum til þess að hafa síðan forystu um endurreisn og endurskipulagningu bankakerfisins á Íslandi. Til þess þarf ríki að eiga banka, allavega einn, og hafa þar með forystu og forgöngu um vaxtakjör í þessu landi."

Fundargestir í Háskólabíó
Fundargestir í Háskólabíó mbl.is/Kristinn Magnússon

Skaut á seðlabankastjóra og fannst margt óþolandi

Þá fannst Þorsteini óþolandi að til stæði að selja Arion og að stýrivextir hefðu ekki lækkað. „Það er óþolandi að selja Arion banka nú, bólginn af eigin fé, kröfuhöfum og vogunarsjóðum sem ætla sér að tæma þá sjóði. Það er óþolandi að ungt fólk geti ekki sest að á Íslandi vegna þess að vaxtaokrið á húsnæðislánum er þannig að það getur ekki komið sér þaki yfir höfuðið og það er óþolandi að vísitölugrunnurinn núna með húsnæðisliðnu inní skuli mæla verðbólgu hér miklu hærra heldur en þyrfti að vera og þess vegna er það forgangsmál að taka það ákvæði út á meðan að menn eru að vinna á verðtryggingunni sjálfir," sagði hann. 

Ekki í tengslum við raunveruleikann

„Það er líka óþolandi að hafa Seðlabanka sem virðist ekki vera í neinum tengslum við raunveruleikann. Það kom ágætlega fram hér áðan að árið 2015 hækkaði Seðlabankinn stýrivexti í óðagoti útaf kjarasamningum sem voru nýgerðir, núna hreykir Seðlabankastjóri sér að því að stýrivextir séu komnir niður en þeir eru bara komnir í sömu prósentu og þeir voru áður en hann greip til þess að hækka þá í óðagoti. Það væri fróðlegt að sjá hvað gerst hefði í íslensku efnahagslífi ef farið hefði verið að því sem ég sagði árið 2015 um að lækka stýrivexti þá úr 4,5%, niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert