„Okkar langtímasýn að þessi byggð víki“

Orkuveitan var sýknuð af kröfu Hrafns Gunnlaugssonar í gær.
Orkuveitan var sýknuð af kröfu Hrafns Gunnlaugssonar í gær. mbl.is/Styrmir Kári

„Niðurstaðan styrkir þau vatnsverndarsjónarmið sem OR hefur haft uppi með Elliðavatnsjörðina, Heiðmörk og þetta svæði,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur. 

Hæstirétt­ur sýknaði í gær Orku­veitu Reykja­vík­ur af kröfu Hrafns Gunn­laugs­son­ar um að af­nota­rétt­ur hans af sum­ar­húsalóð við Elliðavatn yrði viður­kennd­ur með dómi en Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hafði áður fall­ist á að Hrafn ætti af­nota­rétt af lóðinni til 15 ára.

Aðspurður hver næstu skref væru í málinu segir Eiríkur að Orkuveitan hefði gert húseigandum tilboð haustið 2015 um að gera allt að 15 ára leigusamning.

„Jafnframt felst í því tilboði, ef samningar takast, að við aðstoðum viðkomandi við að fjarlægja húsið að leigutíma loknum,“ útskýrir Eiríkur.

Orkuveitan mun því ekki fara fram á að hús Hrafns verði rifið. Eiríkur segir að sýn fyrirtækisins sé sú að byggð og vatnsvernd fari ekki saman. „Hún á stoð í vatnsendaskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Okkar langtímasýn er að þessi byggð víki,“ segir Eiríkur og bætir við að Orkuveitan hafi átt í samskiptum við húseigandur til að reyna að komast að einhverri sátt.

„Núna á næstunni geri ég ráð fyrir því að við tökum upp þráðinn í þessum samtölum,“ segir Eiríkur en lítið hefur verið um samskipti á meðan málið var fyrir dómi.

Boltinn hjá Hrafni?

Spurður að því hvort boltinn sé þá núna hjá húseiganda, um hvort hann taki tilboði Orkuveitunnar, vildi Eiríkur lítið segja um það. „Við byrjum á að rifja upp hvar mál standa og tökum upp þráðinn.

Eiríkur telur að það sé of snemmt að leiða hugann að því hvað Orkuveitan hyggst gera, fari svo að húseigendur taki tilboði þess ekki. 

„Það sem er staðfest í Hæstarétti er hvernig réttarstaðan í málinu stendur. Við teljum okkur vera að verja almannahagsmuni með því að þessi byggð víki með tíð og tíma. Við munum fylgja því eftir en það er voðalega erfitt að spá hvað ef í þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert