Búið að múlbinda Reykjavík Media og Stundina

Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, segir lögbannið vera alvarlegt …
Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, segir lögbannið vera alvarlegt inngrip í lýðræðisumræðu í samfélaginu. Ljósmynd/Heiðar Kristjánsson

„Í mínum huga er þetta mjög gróf aðför að lýðræðinu í landinu vegna þess að blaðamenn og blaðamennska á að snúast um það að fjalla um mál sem varða almannahagsmuni sama hver á í hlut,“ segir Jóhannes Kr. Kristjánsson ritstjóri Reykjavík Media.

Greint var frá því nú undir kvöld að sýslumaður­inn í Reykja­vík hefði fallist á kröfu Glitnis HoldCo um að lögbann yrði sett á á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media, sem byggir á gögnum innan úr fallna bankanum. 

Fulltrúar frá sýslumanni og Glitni komu á skrifstofu Stundarinnar og Reykjavík Media nú síðdegis. Jóhannes segir þá ekki hafa reynt að leggja hald á nein gögn hjá Reykjavík Media. „Fulltrúi sýslumanns féllst ekki á að haldleggja gögn hjá Stundinni og það gilti það sama hjá Reykjavík Media,“ segir hann. „Ef þeir hefðu reynt það, þá hefði ég neitað að láta þau af hendi og frekar látið handataka mig. Ég myndi aldrei láta nein gögn af hendi, því heimildavernd blaðamanna nær út yfir allt –líka gröf og dauða.“

Alvarlegt inngrip í lýðræðisumræðu

Jóhannes segir lögbannið vera grófa aðför að lýðræðinu. „Þegar það er lagt lögbann á vinnslu frétta sem eiga erindi við almenning þá erum við komin út á mjög alvarlega braut. Þetta er mjög alvarlegt inngrip í lýðræðisumræðu í samfélaginu  og hvernig blaðamenn vinna.“

Hann kveðst hafa frétt í fjölmiðlum að farið hefði verið fram á lögbann og því hefði hann verið búinn að setja sig í samband við lögfræðing sinn, Sigríði Rut Júlíusdóttur. „Hún kom okkar sjónarmiðum á framfæri og við mótmæltum þessu, en þetta var samþykkt engu af síður,“ segir Jóhannes og kveður lögbannsbeiðnina hafa verið samþykkta um sexleytið í kvöld.

„Á þessum tímum þegar stjórnmálaumræðan er í fullum gangi og það er verið að takast á um stefnur og strauma þá gerir það málið jafnvel enn alvarlegra að það sé sett lögbann á fréttaflutning,“ segir Jóhannes.

„Það verður tekist á um þetta í staðfestingarmáli fyrir dómstólum í og þar munum við flytja okkar mál. En eins og ég les í stöðuna og miðað við hvaða upplýsingar við höfum akkúrat núna þá er búið að múlbinda Reykjavík Media og Stundina fram yfir kosningar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert