Erlendir göngu-hrólfar nánast einir um hituna

Í Landmannalaugum. Íslenski fáninn balktir á góðvirðrisdegi á vel búnum …
Í Landmannalaugum. Íslenski fáninn balktir á góðvirðrisdegi á vel búnum fararskjóta. Langflestir þeirra gesta sem þangað koma eru erlendir ferðamenn og sömu sögu er að segja um þá sem ganga Laugaveginn. Ljósmynd/Páll Guðmundsson

Þátttaka útlendinga í gönguferðum um Laugaveginn, úr Landmannalaugum í Þórsmörk, hefur aukist með hverju árinu. Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir að á nýliðnu sumri hafi hlutfall þeirra verið allt að 95% af um tólf þúsund sem fóru þessa vinsælu gönguleið. Næsta sumar hyggst Ferðafélagið hafa göngustjóra á Laugaveginum sem verða stöðugt á ferðinni til að leiðbeina og hjálpa göngufólki.

Páll segir að í þessum stóra hópi á Laugaveginum hafi um 56% verið á vegum ferðaskrifstofa, hátt í 20% í öðrum skipulögðum hópum og hátt í 30% á eigin vegum, svokölluð lausaumferð, sem þó hefur heldur minnkað. Hann segir að eftir metsumarið 2016 hafi í sumar lítillega dregið úr aðsókn.

Ört stækkandi hópur göngufólks á hvergi bókað

Ferðafélagið sjálft skipulagði í sumar átta gönguferðir um Laugaveginn með innan við 200 þátttakendum, en félagið rekur fimm skála við Laugaveginn. Þar er margvísleg þjónusta í boði og fyrrnefndar tölur eru m.a. byggðar á upplýsingum úr skálunum. Ýmis kostnaður fellur til í rekstri skálanna og nefnir Páll að kaup á salernispappír hafi til dæmis í ár numið um átta milljónum króna.

„Stærstur hluti fólks sem gengur þessa leið er vel útbúinn og á bókaða gistingu í skálum eða á tjaldsvæði, en ört stækkandi hópur á hvergi bókað,“ segir Páll. „Sá hópur veldur talsverðum erfiðleikum og það dregur líka úr öryggi þegar ekki er vitað um ferðir viðkomandi. Þegar fólk gistir á milli skálasvæða á leiðinni getur það valdið óþrifnaði, skemmdum á náttúrunni og truflað upplifun annarra.

Vilja setja upp öryggishlið

Við höfum dæmi um að 100 manns hafi birst fyrirvaralaust í skálanum við Álftavatn. Fólkið taldi sig geta gengið að gistingu vísri án þess að eiga bókað eða hafa gert boð á undan sér. Það segir sig sjálft að slíkt getur skapað vandamál svo ekki sé talað um þegar gerir vont veður með rigningu og roki.

Við viljum ná utan um þessa hópa og leggjum til að sett verði upp öryggishlið inn á Laugaveginn þannig að enginn fari af stað nema sýna fram á bókanir, réttan búnað og að viðkomandi hafi kynnt sér leiðina. Þá yrði hægt að stjórna því með ákveðinni ítölu hversu margir væru á göngu hverju sinni,“ segir Páll.

Hann segir að erlendis sé góð reynsla af því að hafa staðkunnugt fólk á vinsælum gönguleiðum og hyggist Ferðafélagið fara inn á þá braut næsta sumar. Rúmlega 50 skálaverðir starfi á vegum félagsins á háannatíma og er ætlunin að sækja göngustjóra í þann hóp til að aðstoða fólk og leiðbeina.

Þetta sé að hluta verkefni landvarða, en þeir séu of fáir á svæðinu til að geta sinnt þessu verkefni á allri leiðinni, að sögn Páls. Vilji Ferðafélagsins sé að efla þessa þjónustu í samvinnu við Umhverfisstofnun. Áður hefur Ferðafélagið kynnt hugmyndir um einstefnu á Laugaveginum og að eingöngu verði gengið úr Landmannalaugum í Þórsmörk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert