Gæfa að bjarga mannslífi

Ásdís Styrmisdóttir, til hægri, og Sigríður Sæland sem bjargaði lífi …
Ásdís Styrmisdóttir, til hægri, og Sigríður Sæland sem bjargaði lífi hennar eftir hjartaáfall í sl. viku. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég man ekkert eftir áfallinu né atburðarásinni, nema rétt í svip andlit þessara dásamlegu kvenna sem veittu mér fyrstu hjálp,“ segir Ásdís Styrmisdóttir á Selfossi. Það var í upphafi tíma í vatnsleikfimi í sundlauginni þar í bæ á miðvikudag í síðustu viku, 11. október, sem Ásdís fór í hjartastopp og leið út af við laugarbakka.

Svo vel vildi til að örfáa metra frá stóð Sigríður Sæland íþróttakennari sem í áratugi hefur sinnt skyndihjálparfræðslu. Ætla má að snör viðbrögð hennar, Ásdísar Ingvarsdóttur íþróttakennara og annarra nærstaddra sem bjargir veittu hafi ráðið úrslitum og verið lífsbjörg.

Örfáar sekúndur

Ásdís Styrmisdóttir er nú komin heim af sjúkrahúsi, þar sem hún fór meðal annars í hjartaþræðingu og fékk gangráð. Hún hitti Sigríði lífgjafa sinn í fyrradag og urðu með þeim fagnaðarfundir.

„Við kvennahópurinn vorum komnar í laugina og þá sá ein okkar Ásdísi líða út af og fljóta í vatninu. Ég gerði mér strax ljóst að eitthvað alvarlegt hafði gerst. Saman náðum við nokkrar að koma Ásdísi upp á bakkann sem tók aðeins örfáar sekúndur. Þar byrjaði ég strax að blása í öndunarveg. Það var dásamleg tilfinning að koma súrefni niður því ég sá að Ásdís var með krampaeinkenni og öll farin að blána,“ segir Sigríður þegar hún lýsir málavöxtu.

„Allt gerðist þetta hratt og rennur saman í móðu. Að minnsta kosti man ég ekkert eftir því að hafa beitt hjartahnoði, sem viðstaddir segja mig þó hafa gert. Sjálfsagt eru það þá ósjálfráð viðbrögð; að blása og hnoða fylgist jafnan að.“

Ýmsir komu að því að veita Ásdísi fyrstu hjálp á vettvangi, svo sem starfsfólk og gestir sundlaugarinnar. Sjúkraflutningamenn og lögregluþjónar voru einnig komnir á staðinn tveimur til þremur mínútum eftir útkall og þeirra fyrsta verk var að koma öndunargrímu á sjúklinginn, halda hjartahnoði áfram og gefa rafstuð. Að því loknu var Ásdís flutt á sjúkrahús í Reykjavík

Atvik sem tekur á alla

Þeir sem fyrstu hjálp veittu eða voru vitni að atvikinu fengu áfallahjálp frá sálfræðingi sem mætti á staðinn. Sigríður Sæland segir það hafa verið afar þýðingarmikið; svona mál taki á alla þótt með ólíkum hætti sé.

„Ég hef kennt þúsundum skyndihjálp, en hef aldrei þurft að beita henni sjálf fyrr en nú. En mér finnst einstök gæfa að hafa sjálf bjargað mannslífi. Ég veit að margir sem hafa verið á námskeiðum hjá mér hafa bjargað mannslífum; til dæmis fólki í andnauð, eftir hjartaáfall, með blæðandi sár. Þá sagði mér strákur sem ég kenndi að þegar hann fór fyrir borð á bát og niður með netatrossu hefði sín fyrsta hugsun verið að rifja upp hvað Sirrí kenndi honum; sem var að halda ró sinni og synda í sömu átt og loftbólurnar. Með það komst hann upp á yfirborðið og var bjargað,“ segir Sigríður sem er orðin 73ja ára. Hún er eigi að síður við góða líkamlega heilsu og því tók aðstoðin við Ásdísi ekki svo mjög á. Sér þyki þetta allt hins vegar undirstrika mikilvægi þess að allir – sama á hvaða aldri fólk er – sæki reglulega skyndihjálparnámskeið og haldi þekkingunni við.

Nái fullri heilsu

Ásdís Styrmisdóttir er á góðum batavegi, en segist þó vissulega vera þreklítil eftir áfallið en það er útskýrt sem hjartablokk; það er að boð frá heila til hjarta riðluðust. „Ég fékk áfallið stödd meðal fólks sem kunni skyndihjálp og það er mín gæfa. Hjartahnoðinu fylgdu talsverð átök og ég er aum fyrir bringu og með verki. Þá hef ég lítið þrek og næsta verkefni er að byggja það upp. Læknar segja þó að ekkert eigi að koma í veg fyrir að ég nái fullri heilsu að nýju og ég get því ekki annað en verið þakklát,“ segir Ásdís.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert