Haniye fagnaði tólf ára afmæli sínu

Haniye blæs á kerti afmæliskökunnar í dag.
Haniye blæs á kerti afmæliskökunnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Tólf ára afmæli hinnar afgönsku Haniye Maleki var haldið fyrr í dag, í annað skipti, en í sumar var haldið afmæli fyrir Haniye á Klambratúni, þar sem ekki var útlit fyrir að hún gæti haldið upp á það hérlendis.

„Þau þekkja nú orðið töluvert af fólki hérna og það mættu bara flestir. Þetta var mjög rólegt og næs,“ segir Guðmundur Karl Karlsson, vinur fjölskyldunnar.

Til stóð að senda Haniye og Abrahim föður hennar til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Af því varð þó ekki, þar sem breytingar á útlendingalögum voru samþykktar undir lok síðasta þings. Þær veita Haniye og föður hennar tækifæri til að fá efnislega meðferð á hælisumsókn sinni og fengu þau staðfest fyrr í þessum mánuði að svo yrði. Því eru þau enn hérlendis.

Nánustu vinir fjölskyldunnar söfnuðust saman og fögnuðu afmæli Haniye.
Nánustu vinir fjölskyldunnar söfnuðust saman og fögnuðu afmæli Haniye. mbl.is/Árni Sæberg

 „Það er gríðarlega ánægjulegt finnst okkur, að hafa náð þessum áfanga og að hún sé ennþá hérna með okkur á sjálfan afmælisdaginn. Þegar við héldum afmælið á Klambratúni þá var ekkert afmælið hennar og það leit ekkert út fyrir það að hún fengi að halda það hér. Við erum öll í skýjunum og hún líka,“ segir Guðmundur Karl.

Hann segir að þetta sé fyrsta afmælið sem hún heldur uppá. „Þegar hún bjó í Íran var aldrei haldið upp á afmælið. Abrahim veit ekki einu sinni hvenær hann á afmæli,“ segir Guðmundur Karl hlæjandi og bætir því við að Haniye sé ekki hætt öllu afmælishaldi, þar sem til standi að halda veislu fyrir bekkjarfélaga hennar úr skólanum síðar í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert