Nýjar íbúðir við Efstaleiti

Fjölbýlishúsin rísa í grónu hverfi miðsvæðis í borginni.
Fjölbýlishúsin rísa í grónu hverfi miðsvæðis í borginni. Tölvuteikning/T.ark

Sala á nýjum íbúðum sunnan við Útvarpshúsið í Efstaleiti hefst um mánaðamótin. Íbúðirnar eru þær fyrstu sem rísa í nýju hverfi.

Félagið Skuggi byggir íbúðirnar. Þær verða afhentar næsta sumar.

Um er að ræða fjögur fjölbýlishús með bílakjöllurum. Þar verður 71 íbúð og 44 stæði í kjallara, auk 31 stæðis ofanjarðar við húsin. Þá er fjöldi stæða á nærliggjandi bílastæðum sem samnýtt verða með RÚV.

Húsin standa við nýja götu, Jaðarleiti, og er þaðan mikið útsýni.

Hilmar Ágústsson, framkvæmdastjóri Skugga, segir flestar íbúðirnar í Jaðarleitinu verða 60 til 110 fermetrar. Svalalokanir fylgja öllum íbúðum og gluggafletir í stofurýmum verða stórir og gólfsíðir.

Verkið hefur unnist hratt

Jarðvegsvinna hófst undir lok síðasta árs og hófst uppsteypa í janúar. Verkið hefur því unnist hratt en Skuggi keypti lóðirnar fyrir rúmum tveimur árum.

Hilmar segir hverfið byggt upp í þremur áföngum. Á eftir Jaðarleiti, sem verður fyrsti áfangi verksins, er stefnt að því að afhenda 160 íbúðir í áfanga 2 um sumarið 2019 og loks 130 íbúðir í áfanga 3 sumarið 2020. Íbúðir í áföngum 2 og 3 verða við Efstaleiti, Lágaleiti og Vörðuleiti. Tvær síðastnefndu göturnar eru nýjar götur. Samtals verður því 361 íbúð í hverfinu.

Nýtt hverfi í borginni

„Það heillaði okkur að geta búið til heildstætt hverfi á rótgrónu miðborgarsvæði. Það lá fyrir afskaplega skemmtileg vinningstillaga um deiliskipulag frá Arkþing fyrir svæðið. Hverfið var meðal annars skipulagt með tilliti til gönguleiða þar sem byggingar eru stallaðar með þakgörðum og grónu yfirbragði til að útsýni væri sem allra best. Að á svæðinu væru skjólgóðir garðar og nútímalegt og hlýlegt íbúðahverfi.“

Ágætt útsýni verður frá mörgum íbúðanna í Jaðarleiti.
Ágætt útsýni verður frá mörgum íbúðanna í Jaðarleiti. Tölvuteikning/T.ark

Hilmar segir að við hönnunina sé horft til þess að geta boðið upp á íbúðir fyrir breiðan hóp kaupenda. Þá sé lögð áhersla á að bjóða bjartar litlar og meðalstórar íbúðir.

„Fyrir vikið verður hægt að finna íbúðir á breiðu verðbili. Við töldum að skortur væri á smærri íbúðum, allt frá 40 fermetra tveggja herbergja íbúðum og stúdíóíbúðum. Meðalstærð íbúða er 77 fermetrar og verða fáar yfir 100 fermetrar.“

Geta notað stæðin hjá RÚV

Alls verða 282 bílastæði í kjöllurum og 120 bílastæði ofanjarðar þegar hverfið er fullbyggt. Almennt munu ekki fylgja bílastæði með íbúðum sem eru minni en 60 fermetrar. Hilmar bendir jafnframt á að bílastæði verði samnýtt með RÚV. Við útvarpshúsið sé fjöldi bílastæða sem geti nýst íbúum og gestum utan hefðbundins vinnutíma í húsinu.

„Það fylgir ekki bílastæði með minnstu íbúðunum. Íbúar geta þó keypt stæði sérstaklega ef þeir vilja. Hugmyndafræðin er að hluti íbúa muni ekki þurfa bíl og því hentar þeim ekki að kaupa bílastæði með íbúð. Svæðið er mjög miðsvæðis og stutt er í alla þjónustu og góðar almenningssamgöngur,“ segir Hilmar.

Bílaleiga með rafbílum

Hann segir til skoðunar að hafa bílaleigu með rafbílum fyrir íbúa nýja hverfisins við Efstaleiti. Með slíkri þjónustu geti íbúar samnýtt bifreiðir. Rannsóknir bendi til að ein slík bifreið geti komið í stað 15 í einkaeigu. Það dragi úr bílaálagi á svæðinu. Jafnframt verði boðið upp á möguleika til að hlaða rafbíla. Þá verða hreyfistöðvar, leikvellir og fjöldi hjólastæða. Meðal annarra nýjunga í hverfinu er notkun djúpgáma. Hilmar segir að með þeim verði íbúum auðveldað að flokka sorp meira en jafnan er gert.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert