Jarðskjálftinn sem varð klukkan 21.50 í gærkvöldi, um 6 kílómetra norðaustur af Selfossi, var mun stærri en talið var í fyrstu, eða 4,1 að stærð. Í fyrstu var gefið upp að hann hefði verið 3,4 að stærð, en á því er töluverður munur.
Skjálftahrina hefur staðið yfir á svæðinu frá því klukkan fjögur í gærdag og í þeirri hrinu hafa auk þess mælst fjórir skjálftar um 3 að stærð og hátt í 400 minni eftirskjálftar.
Jarðskjálftavirknin í hrinunni náði hámarki í gærkvöldi en hefur verið viðvarandi í nótt og dag. Margir stærri skjálftanna fundust í byggð, bæði á Selfossi og á höfuðborgarsvæðinu, en á Selfossi drundi allt og munir hrundu úr hillum og brotnuðu.
Upptök skjálftanna eru á Suðurlandsbrotabeltinu á þekktu sprungusvæði þar sem skjálftar um 6,5 að stærð hafa orðið á sögulegum tíma.