Smitáhrif lítil af kynjakvótum

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, hélt erindi.
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, hélt erindi. mbl.is/Árni Sæberg

Konum í stjórnum fyrirtækja sem eru með 50 starfsmenn eða fleiri fjölgaði eftir að lög um kynjakvóta í stjórnum þeirra tóku gildi árið 2013. Lítil sem engin breyting hefur orðið á kynjahlutfalli í stjórnum minni fyrirtækja sem lögin ná ekki yfir. Frá árinu 1999 hefur kynjahlutfallið í þeim fyrirtækjum haldist nánast óbreytt körlum í vil, um 25% stjórnarmanna eru konur og 75% eru karlar. Þetta kom fram í erindi Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektors Háskóla Íslands og prófessors í félagsfræði, á ráðstefnunni Women Economic Forum í gær.

Ráðstefnan var unnin í samstarfi við HÍ, Velferðarráðuneytisins og Félags kvenna í atvinnulífinu FKA og fram fór í Hörpu.  

Lögin til að jafna hlut kvenna í stjórnum

Lögin eru verkfæri stjórnvalda til að jafna stöðu kvenna og karla í stjórnum fyrirtækja og í þeim er kveðið á um að lágmarkshlutfall hvors kyns í stjórn skuli vera 40%. Þessi lög ná yfir 3% íslenskra fyrirtækja þar sem flest fyrirtæki hér á landi eru með færri starfsmenn en 50. Hins vegar eru þetta engu að síður mikilvæg fyrirtæki því þetta eru stærstu fyrirtæki landsins.

Guðbjörg hefur, ásamt samstarfsfólki í HÍ, rannsakað viðhorf stjórnenda til framgangs kvenna í 250 stærstu fyrirtækjum landsins. Þeir sem eru líklegastir til að styðja kynjakvóta eru konur og stjórnendur með hærra menntunarstig. Auk þess eru eldri stjórnendur líklegri til að vera hlynntir kynjakvóta en þeir sem yngri eru. Það gildir bæði um karla og konur.

Stjórnendur fyrirtækja þar sem yfir 90% stjórnarmanna eru karlmenn eru minna líklegir til að styðja kynjakvóta en þeir sem starfa í fyrirtækjum þar sem ríkir meira kynjajafnrétti í stjórninni. Einnig eru þeir stjórnendur fyrirtækja, þar sem karlmenn eru í meirihluta meðal starfsfólks, minna líklegir til að styðja kynjakvóta en þeir sem starfa í fyrirtækjum þar sem meiri kynjablöndun er til staðar. „Er það karllæg menning í fyrirtækjunum sem veldur?“ spyr Guðbjörg.

Lífsmynstur kvenna eða skipulag vinnu?

Hún bendir jafnframt á að rannsóknir hennar og samstarfshópsins sýni að til staðar sé ákveðið kynjamynstur þegar kemur að því að útskýra orsakir þess að svo fáar konur séu æðstu stjórnendur. „Kvenkynsstjórnendur eru líklegri til að benda á að orsakirnar liggi í skipulagi vinnu, meðan karlar, frekar en konur, líta svo á að vandinn liggi í lífsmynstri kvennanna,“ segir Guðbjörg.

„Þrátt fyrir áhrif lagasetningarinnar á kynjasamsetninguna í stjórnum stærri fyrirtækja, þá hafa lögin ekki haft smitáhrif á kynjahlutfall smærri fyrirtækja. Lögin um kynjakvóta hafa ekki heldur haft smitáhrif í átt til fjölgunar stjórnarformanna sem neinu nemur, né til fjölgunar forstjóra eða framkvæmdastjóra,“ segir Guðbjörg. 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, hélt erindi …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, hélt erindi á ráðstefnunni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert