Stóð á miðjum veginum er ekið var á hann

Flugvélaflakið á Sólheimasandi. Ferðamennirnir ætluðu að skoða það þegar banaslysið …
Flugvélaflakið á Sólheimasandi. Ferðamennirnir ætluðu að skoða það þegar banaslysið átti sér stað.

Ferðamaðurinn, sem lést er á hann var ekið á  þjóðvegi 1 á Sólheimasandi í september í fyrra stóð úti á miðjum veginum og sneri baki í bílinn sem ekið var vestur Suðurlandsveg. Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa um málið kemur fram að maðurinn hafi ekki gætt að sér, hann hafi verið dökkklæddur og án endurskinsmerkja á veginum í myrkri.

Segir í skýrslunni að slysstaðurinn sé við slóða sem liggur að vinsælum ferðamannastað, en slóðinn hafi verið lokaður fyrir umferð ökutækja. Myrkur var og þegar slysið átti sér stað var staðurinn ómerktur, óupplýstur og án bílastæða.

Fram kom í fréttum um banaslysið í fyrra að ferðamennirnir hefðu lagt bif­reiðum sín­um úti í veg­arkanti og höfðu í hyggju skoða flug­vélarflakið á Sól­heimas­andi. 

Maðurinn var í  hópi 9 kínverskra ferðamanna sem voru á ferð um landið á tveimur bílum. Þeir lögðu bílnum norðan Suðurlandsvegar og sögðu ferðamennirnir á sínum tíma að tveir þeirra hefðu hefði stigið út úr bifreiðinni til að líta til vegar. Á sama tíma var Volkswagen Polo bílaleigubifreið ekið vestur Suðurlandsveg. Auk ökumanns var einn farþegi í framsæti og var hann sofandi, báðir erlendir ferðamenn.

Segir í skýrslunni að ökumaðurinn hafi skyndilega séð mann standa við veginn og tveimur til þremur sekúndum seinna hafi hann séð annan mann standa á veginum og snúa baki í akstursstefnu bifreiðarinnar. Var það staðfest við rannsókn málsins. Kvaðst ökumaðurinn hafa hemlað en ekki náð að sveigja frá og ekið á manninn sem lenti á vélarhlíf bifreiðarinnar, kastaðist síðan af bílnum og út fyrir veg.

Segir í skýrslunni að vegurinn við slysstað sé beinn og óupplýstur og slóðin sem liggi suður Sólheimasand á þessum stað sé afar vinsæll hjá ferðamönnum vegna flugvélaflaksins sem þar sé að finna.

Eftir slysið var hámarkshraði á þessum vegarkafla lækkaður tímabundið niður í 70 kílómetra á klukkustund þar til útbúið hafði verið bílastæði sunnan við þjóðveginn og vegamót inn á þau lagfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert