Sjálfstæðisflokkurinn fékk mest

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax

Átta stjórnmálaflokkar fengu framlög upp á 678 milljónir á síðasta ári. Framlögin koma frá ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum, einstaklingum, auk annarra rekstrartekna. Sjálfstæðisflokkurinn fékk mest en Flokkur fólksins minnst.

Hægt er að nálgast útdrátt úr ársreikningum flokkanna á vefsíðu Ríkisendurskoðunar. Sjálfstæðisflokkurinn fær mest frá ríkissjóði og sveitarfélögum, 96,7 milljónir frá ríkissjóði og 17,7 milljónir frá sveitarfélögum en greiðslur frá ríki og sveitarfélögum eru í samræmi við styrk flokkanna í síðustu kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk auk þess 19,1 milljón frá ýmsum fyrirtækjum og 41 milljón frá einstaklingum en inni í þeirri upphærð eru félagsgjöld flokksins. Svokallaðar aðrar rekstrartekjur eru rétt tæpar 64 milljónir króna og hlaut flokkurinn því samtals 239 milljónir króna í fyrra.

Framsóknarflokkurinn kemur næstur á eftir en framlög til flokksins námu alls 140 milljónum. Hann fékk tæpar 90 milljónir úr ríkissjóði og rúmar 5 milljónir frá sveitarfélögum.

Samfylkingin fékk 100 milljóna framlög í fyrra en næststærsti flokkurinn á þingi, Vinstri græn, fékk 70 milljóna króna framlög á síðasta ári. Píratar fengu 50 milljónir, Björt framtíð 43 og Viðreisn 30 milljónir. Flokkur fólksins rak lestina með 4,1 milljón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert