Ber ábyrgð á rekstri sjúkrahótels

Landspítalinn við Hringbraut
Landspítalinn við Hringbraut mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítala hefur verið falin ábyrgð á rekstri nýs 70 rýma sjúkrahótels á lóð spítalans við Hringbraut, samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra.

Ábyrgð Landspítalans á rekstri sjúkrahótels grundvallast á 20. grein laga um heilbrigðisþjónustu sem heimilar að kveða megi nánar á um þjónustu spítalans með sérstakri reglugerð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.

Gert er ráð fyrir að Landspítali bjóði út rekstur sjúkrahótelsins í samvinnu við Ríkiskaup samkvæmt lögum um opinber innkaup. Það er gert til að að tryggja að rekstraraðili verði með reynslu af hótel- og veitingarekstri.

Helstu markmiðin sem stefnt er að með rekstri sjúkrahótels eru að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda sem ekki er veitt í heimabyggð þeirra, styðja við bataferli sjúklinga í kjölfar meðferðar og bjóða aðstandendum sjúklinga gistingu eftir því sem þörf krefur.

Miðað er við að þeir sem dvelja á sjúkrahótelinu séu sjálfbjarga við athafnir daglegs lífs. Starfsemin mun því fyrst og fremst felast í hótelþjónustu. Dvalargestir eru því innritaðir á hótelinu en ekki á sjúkrahúsi, en nálægð við Landspítala tryggir öryggi dvalargesta. Gestir munu greiða fyrir dvölina samkvæmt gildandi reglum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert