Atvinnu- og tekjulaus í „vistarbandi“

Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður.
Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður. mbl.is/Frikki

Stjórnendur 365 miðla hafa neitað Loga Bergmanni Eiðssyni um að mæta til starfa og vinna 12 mánaða uppsagnarfrest sinn. Þá hafa þeir gert Loga grein fyrir því að hann fái ekki greidd laun meðan á uppsagnarfrestinum stendur.

Guðjón Ármannsson, lögmaður Loga, segir málið fordæmalaust og afstöðu 365 óskiljanlega. Lögmaðurinn tilkynnti stjórnendum 365 sl. föstudag að Logi hygðist mæta til vinnu á mánudag en var þá svarað með fyrrgreindum hætti.

Forsaga málsins er sú að hinn 11. október sl. var tilkynnt að Logi hefði ráðið sig til starfa hjá Árvakri hf., eiganda Morgunblaðsins, mbl.is og K100. Í kjölfarið fóru 365 miðlar fram á lögbann á störf Loga, vegna klausu í ráðningasamningi hans sem kvað á um 12 mánaða uppsagnarfrest og 12 mánaða tímabil þar á eftir þar sem Logi mætti ekki starfa hjá samkeppnisaðila.

Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti lögbannsbeiðni 365, sem Guðjón sagði jafngilda „vistarbandi“ í samtali við mbl.is 18. október sl.

Lögmaðurinn segir þá ákvörðun 365 að neita Loga um að mæta til vinnu og neita að borga honum upppsagnarfrestinn sérkennilega. Lögbannsmálið sé fyrir dómstólum og þar muni afstaða 365 koma til skoðunar.

Höfuðstöðvar 365 miðla.
Höfuðstöðvar 365 miðla. mbl.is/Ómar

RÚV greindi fyrst frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert