Aukinn samdráttur í síldarráðgjöf ICES

mbl.isAlfons Finnsson

Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES, hefur leiðrétt fyrri ráðgjöf um veiðar á norsk-íslenskri síld á næsta ári. Nú er ráðlagt að ekki verði veitt meira en sem nemur rúmlega 384 þúsund tonnum í samræmi við samþykkta aflareglu strandríkja. Fyrir mánuði síðan var lagt til að aflinn 2018 yrði ekki meiri en 546 þúsund tonn.

Um mikinn samdrátt er því að ræða, en ráðgjöf fyrir bæði 2017 og 2018 hefur nú verið endurskoðuð. Ráðgjöf fyrir árið 2017 var 646 þúsund tonn, en hefur nú verið lækkuð í rúm 437 þúsund tonn. ICES gerir hins vegar ráð fyrir því að aflinn í ár verði rúmlega 805 þúsund tonn.

Í október 2017 uppgötvaðist villa í gögnum frá bergmálsleiðangri á hrygningarslóð við Noreg fyrir árin 1988-2008. Þessi villa olli því að stærð stofnsins var verulega ofmetin í úttektinni í fyrra og einnig þeirri sem kynnt var núna í september.

Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar segir meðal annars: „Leiðrétta stofnmatið sýnir stærð hrygningarstofns árið 2017 vera 14% lægri og fiskveiðidauði ársins 2016 er 15% hærri heldur en stofnmatið sem kynnt var í september sl. Samþykkt aflaregla gefur 32% lægra ráðlagt aflamark fyrir árið 2017 og 30% lægra ráðlagt aflamark fyrir árið 2018 en fyrri útgefnar ráðgjafir.“

Veiðar umfram ráðgjöf ICES 10–21% á ári

Á vef Hafró segir einnig: „Ekki er í gildi samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum um skiptingu aflahlutdeildar og hver þjóð hefur því sett sér aflamark. Afleiðingarnar eru að frá árinu 2013 hafa veiðar umfram ráðgjöf ICES numið 10–21% á ári. Samhliða hefur stofninn farið minnkandi vegna lélegrar nýliðunar allt frá árinu 2005.

Villan í stofnmatinu sem uppgötvaðist nú í október hefur verið til staðar frá því að rýnifundur um stofnmat átti sér stað í janúar 2016. Þessi villa hafði því einnig áhrif á ráðgjöf síðasta árs og er hún því leiðrétt hér.

Lækkun á ráðgjöf fyrir 2017 og 2018, í samanburði við fyrri (röngu) ráðgjafir, má rekja til lækkunar á mati á stærð hrygningarstofns. Afleiðingin er sú að stofninn fer enn lengra niður fyrir aðgerðarmörk sem lækkar veiðdánartölur frekar í samræmi við samþykkta aflareglu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert