Ökumaðurinn dópaður og vopnaður

Lögreglan stöðvaði för ökumanns á höfuðborgarsvæðinu um hálfeitt í nótt vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Við öryggisleit á honum fundust bæði fíkniefni og rafstuðbyssa. Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð en látinn laus fljótlega að lokinni sýnatöku og skýrslugjöf.

Um klukkan 23 í gærkvöldi stöðvaði lögreglan ökumann grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna. Öll helstu fíkniefni mældust í prufu og fíkniefni fundust við leit. Látinn laus að lokinni skýrslu- og sýnatöku.

Tvö innbrot komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Um klukkan 23 var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Höfðahverfi. Skemmdir voru unnar við innbrotið en ekki er vitað á þessari stundu hvort einhverju hafi verið stolið og er málið í rannsókn lögreglu.

Um hálfþrjú var tilkynnt til lögreglu um innbrot í fyrirtæki í Breiðholti. Skemmdir unnar við innbrotið en ekki að sjá að neinu hafi verið stolið. Málið er í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert