Rokkrefir í Eldborgarsal

Robin Pecknold forsprakki Fleet Foxes á tónleikunum í Hörpu í …
Robin Pecknold forsprakki Fleet Foxes á tónleikunum í Hörpu í kvöld. mbl.is/Eggert

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er í fullum gangi en tónlistarveislunni lýkur á morgun. Bandaríska hljómsveitin Fleet Foxes hélt tónleika í Eldborgarsal Hörpu í kvöld og lék þar mörg af sínum þekktustu lögum, m.a. Mykonos, White Winter Hymnal og Helplessness Blues, en tónleikar sveitarinnar eru einn af hápunktum hátíðarinnar.

Blaðamaður mbl.is sem var á tónleikunum, segir að stemningin í Hörpu hafi verið ljómandi góð og tónleikarnir vel lukkaðir. Tónleikagestir stóðu upp í lok tónleikanna og klöppuðu vel og lengi. Robin Pecknold, söngvari og aðallagahöfundur sveitarinnar, sneri síðan aftur á sviðið og lék nokkur aukalög fyrir gestina við góðar undirtektir. Kvennakórinn Graduale Nobili söng í nokkrum lögum, m.a. í lokalaginu, en Pecknold greindi tónleikagestum m.a. frá því að hann hefði samið hluta af textanum á Íslandi.

Fleet Foxes er indísveit, stofnuð í Seattle árið 2006 og hefur notið mikilla vinsælda allt frá því hún sendi frá sér aðra stuttskífu sína, Sun Giant og vermir fyrsta breiðskífa hennar, samnefnd sveitinni, 47. sæti tímaritsins Rolling Stone yfir 100 bestu plötur sem komið hafa út frá aldamótum.

Góð stemning var á tónleikum Fleet Foxes í kvöld.
Góð stemning var á tónleikum Fleet Foxes í kvöld. mbl.is/Eggert

Það kom því kvennakórnum Graduale Nobili skemmtilega á óvart þegar stjórnandi kórsins, Þorvaldur Örn Davíðsson, tilkynnti að til stæði að syngja með Fleet Foxes á tónleikum sveitarinnar og taka auk þess upp myndband með henni, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í dag

Vera Hjördís Matsdóttir, formaður kórsins, sagði í samtali við blaðið, að það hefði verið haft samband við Þorvald fyrir nokkrum vikum, fyrir hönd hljómsveitarinnar, og hann í kjölfarið sent upptökur með söng kórsins til hljómsveitarinnar. Í framhaldi varð kórinn svo fyrir valinu og Þorvaldur beðinn um að útsetja kórkafla í nokkrum lögum sem Fleet Foxes flutti á tónleikunum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert