Björgunarsveitir í viðbragðsstöðu

Björgunarsveitir að störfum í vonskuveðri í desember fyrir tveimur árum.
Björgunarsveitir að störfum í vonskuveðri í desember fyrir tveimur árum. mbl.is/Eggert

Að sögn talsmanns Slysavarnafélagsins Landsbjargar verða björgunarsveitirnar viðbúnar því að bregðast við útköllum í dag rétt eins og aðra daga, en Veðurstofan hefur varað við stormasömu veðri eftir hádegi í dag og fram eftir kvöldi.

Nú stendur yfir rjúpnaveiðitímabil og vill Landsbjörg ítreka við rjúpnaskyttur að fylgjast með veðurspá og kynna sér aðstæður. Líklegt sé að ekki verði mikið rjúpnaveiðiveður í dag, allavega á ákveðnum stöðum á landinu, og annars staðar sé mjög mikilvægt að skyttur hugi að öryggismálum sínum, séu vel útbúnar og með nauðsynlegan öryggisbúnað.

Að venju eru það lausir hlutir í húsgörðum, svo sem trampólín, sem fólk þarf að huga að og ganga frá þannig að þeir verði ekki vindinum að bráð.

„Aðalpunkturinn er sá að menn fylgist með veðurspá og hugi að aðstæðum bæði innan bæjar og utan og séu ekki að ana út í einhver ferðalög.“

Á vef Veðurstofu Íslands er appelsínugul viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð og miðhálendið. Á höfuðborgarsvæðinu má búast við vindhraða frá 18 til 25 m/s, en annars staðar þar sem viðvörunin á við má búast 20 til 28 metra vindhraða á sekúndu auk þess sem vindhviður gætu farið upp í 40 m/s.

Storminum fylgir talsverð úrkoma, en aðallega verður um rigningu eða slyddu að ræða á láglendi en jafnvel snjókomu á heiðum og hálendi. Einkum má búast við samgöngutruflunum á heiðum, undir Eyjafjöllum, Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. Á miðhálendi landsins verður ekkert ferðaveður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert