Er eitthvað til að grínast með?

Er eitthvað til að hlæja að?
Er eitthvað til að hlæja að? Haraldur Jónasson / Hari

Einstakar þjóðir Evrópu elska að hlæja að öðrum en sjálfum sér. Svíar hlæja að Norðmönnum fyrir að vera sveitalubbalegir og Norðmenn hlæja að þeim á móti og segja þá ókurteisa beturvita.
Danir og Finnar hlæja líka að Svíum en Írar skopast að Bretum fyrir að vera bældir. Bretar skopast að sjálfsögðu að Írum á móti og segja þá ódannaða drykkjumenn. Spánverjar hlæja að Portúgölum, Portúgalar að Spánverjum og Frakkar gera gys að Þjóðverjum. Svona mætti áfram halda. En er einhver sem hlær að Íslendingum? Og fyrir hvað? Í grein sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina er kafað ofan í málið.

Hí á skóginn ykkar – og veðrið

Hvað gerir þú ef þú týnist í íslenskum skógi? Þú stendur upp.
Hver hefði trúað því að hægt væri að gera grín að okkar margrómuðu náttúru? Það er sem sagt hægt. Einn klassískasti brandari um Ísland tengist einmitt náttúrunni, eða skorti á trjám. Að sumra mati er þetta eini raunverulegi útbreiddi brandarinn sem til er um Ísland, en það eru þó til fleiri brandarar um trjáleysi:
Þú veist að þú ert Íslendingur þegar hugmynd þín um að búa til landslag er tré.


Í seinni tíð finnst útlendingum mjög fyndið að birta brandarann um að standa upp í skógi og myndskreyta með myndum úr ferðalagi sínu um Ísland. Má finna fjöldann allan af myndum á netinu af kappklæddum útlendingum sitjandi á hækjum sér í kjarri, hlæjandi.
Hverasvæðin lenda líka í léttu gríni. Eins og að á Íslandi sé til dæmis svo kalt að jafnvel kanínurnar séu með eigin arin. Hveralyktin og lyktin af heita vatninu okkar er líka stundum efni í grín.
Þú veist að þú ert á Íslandi þegar þú lyktar eins og soðið egg eftir sturtu.
Annað eftirlætisefni úr náttúruflokknum er veðrið. Stærsti brandarinn er líklega opinber fyrsti dagur sumars á almanakinu. Aðrir vinsælir eru:
Ef þér líkar ekki veðrið á Íslandi, bíddu bara í fimm mínútur.

Veðrið er eitt stórt grín.
Veðrið er eitt stórt grín. Eggert Jóhannesson

 

Þú veist að þú ert á Íslandi ef þú skoðar vindaspá oftar en úrkomuspá. 
Þú veist að þú ert á Íslandi ef þér finnst eðlilegt að fara á djammið í háum hælum þótt það sé fellibylur.
Á Íslandi færðu allar fjórar árstíðirnar á einum degi. 
Mörgum ferðamönnum þykja þessir brandarar þó minna fyndnir þegar þeir komast að því að þeir eru sannir.

Banka- og náttúruhamfarir

Hver er munurinn á Íslandi og Írlandi? Einn stafur og sex mánuðir.
Þessi brandari varð til í kjölfar þess að hálfu ári eftir að efnahagshrun varð á Íslandi stóð Írland frammi fyrir sams konar vandamáli. Raunar komst þessi brandari í helstu írsku fjölmiðlana og vitnað var í þáverandi forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, sem sagði að það að hæðast svona að erfiðleikum þjóða, sem væri vinsælt í fjármálageiranum í London, væri bara dæmi um hrokann í Bretum, eins og írska Times vitnaði til.

Bankahrunið varð efni í marga brandara.
Bankahrunið varð efni í marga brandara.

Erfiðleikar þjóðar stöðvuðu þó ekki grínarana. Breskur brandarakarl setti Ísland á uppboð á Ebay.com, lágmarksboð var um 100 krónur. Hann sagði þetta vera einstakt tækifæri til að eignast þjóð í norðri. Af þessu uppboði spruttu brandarar:

Fylgir Björk með?
Er hægt að fá það í öðrum lit en hvítum? 
Daniel Chartier, prófessor við Quebec-háskóla í Montreal, skrifaði meðal annars um nokkra þá brandara sem urðu til í bankahruninu í bókinni The End of Iceland's Innocence. 
Chartier bendir á að margir brandaranna hafi ýjað að hæfni okkar til að vera sjálfstæð þjóð og kulda og ís.
Ísland er fyrsta fórnarlamb efnahagslegrar ísaldar.
Vegna skyndilegrar frægðar Íslands á alþjóðavísu með efnahagskrísunni árið 2008 var stutt í að samnýta þá viðburði, árið 2008 og svo eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 í brandara.
Tökum ofan fyrir íslensku þjóðinni. Fyrst lýstu þeir sig gjaldþrota, svo kveiktu þeir í eyjunni sinni.
Það var hinsta ósk íslensks efnahags að ösku hans yrði dreift yfir alla Evrópu. 
Þótt eldgos og náttúruhamfarir séu háalvarlegt mál mildast alvaran eftir því sem fjarlægðin er meiri.

Þannig hafa erlendar þjóðir séð fulla ástæðu til að gera grín að eldgosunum okkar síðustu árin, enda hafa þessi gos haft mildari áhrif en hér heima og helst bitnað á ferðalögum þeirra sem brandarana segja.
Margir frægustu brandaranna sem urðu til um eldgosið eru orðaleikir sem þýðast illa;
Iceland, we wanted your cash, not your ash. (Ísland, við vildum fé ykkar, ekki ösku.)
Eftir efnahagshrunið báðu Bretar Ísland um að senda sér pening (cash). Það er ekkert c í íslenska stafrófinu svo þeir sendu ösku (ash) í staðinn.
Þá var fólk fast á flugvöllum úti um allan heim efni í marga brandara. Gárungar sögðu að Richard Curtis, leikstjóri Love Actually, væri að vinna að rómantískri gamanmynd um ástir flugvallargestanna sem hann kallaði „Lava Actually“.
Mörgum þótti gosið í Eyjafjallajökli langt, einn vinsæll brandari var:
Eyjafjallajökull gýs aðeins tvisvar á ári – frá apríl fram í september og í október fram í mars.

Greinin birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert