Fjórir handteknir eftir meiriháttar líkamsárás

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Allar fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru fullar eftir nóttina en lögreglan hafði í nógu að snúast á næturvaktinni. Lögreglan greinir m.a. frá því að fjórir einstaklingar hafi verið handteknir í Hafnarfirði grunaðir um meiriháttar líkamsárás.

Nánari upplýsingar um árásina og helstu atvik liggja ekki fyrir. 

Þrír menn til viðbótar voru handteknir grunaðir um líkamsárás.

Sá fyrsti var handtekinn á tíunda tímanum í gærkvöldi, en hann hafði ráðist á starfsmann verslunar í Breiðholti. Starfsmaðurinn mun hafa haft afskipti af manninum þar sem hann var að stela. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu.

Annar maður var svo handtekinn við Hafnarstræti í miðborg Reykjavíkur á fjórða tímanum í nótt. Hann er grunaður um að hafa hent glasi í höfuð manns í tvígang. Í fyrra skiptið brotnaði glasið ekki en brotnaði svo í seinna skiptið.  Ekki er vitað um líðan brotaþola sem fékk sár á höfuðið.

Þriðji maðurinn var handtekinn rétt fyrir klukkan fimm í morgun í  Lækjargötu. Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir aðrar en þær að maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Ekki er vitað um líðan brotaþola.

Þá hafði lögreglan afskipti af ökumönnum sem voru grunaðir um að aka bifreiðum undir áhrifum áfengis eða vímuefna auk þess sem lögreglan hafði afskipti af nokkrum mönnum sem voru ofurölvi, m.a. einum sem datt á gangstétt við Hlemm í Reykjavík. Sá hlaut minniháttar sár á höfði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert