Allt áætlunarflug á tíma í dag

Áætlunarflug WOW air á að vera á tíma í dag, …
Áætlunarflug WOW air á að vera á tíma í dag, en sjö klukkustunda seinkunn varð að meðallagi á ferðum flugfélagsins í gær.

Ofsaveðrið í gær hafði áhrif á 19 flugleiðir WOW air og um 3.500 farþega. Þetta segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air. Hún segir allt áætlunarflug flugfélagsins hins vegar vera á tíma í dag.

Þrjár vélar WOW air, sem áttu að fljúga til Norður-Ameríku síðdegis í gær, hafi hins vegar ekki lagt af stað fyrr en í nótt. „Það eru allt vélar sem áttu að fara á loft á þeim tímaramma sem stormurinn stóð sem hæst og lokað var á flug frá Keflavíkurflugvelli,“ segir Svanhvít og kveður meðalseinkun á áætlunarflugi flugfélagsins hafa verið um sjö klukkustundir. „Því miður þurfti síðan að aflýsa flugi til og frá Chicago, Baltimore, Pittsburgh, Montreal og Alicante,“ bætir hún við.

Flug WOW air til Chicago, Baltimore, Pittsburgh og Montreal virðist hins vegar allt vera á áætlun í dag. Þá mun vélin sem fara átti til Alicante í gær fljúga þangað í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert