Allt að 15 stiga frost um helgina

Það verður kalt um helgina.
Það verður kalt um helgina. mbl.is/Eggert

Heldur kólnar þegar líður á vikuna og um helgina verður talsvert frost um allt land. Gert er ráð fyrir allt að 15 gráða frosti á Akureyri á sunnudagskvöld en það byrjar að kólna á fimmtudagskvöld.

„Það verður frekar kalt,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann segir að á morgun snjói norðan heiða en á höfuðborgarsvæðinu megi íbúar gera ráð fyrir slyddu eða rigningu. 

„Það verður að mestu leyti frost á öllu landinu frá fimmtudagskvöldi og fram yfir helgi,“ segir Teitur en kaldast verður í Reykjavík á laugardag og á sunnudag verður mikið frost á Norðurlandi.

Spurður segir Teitur alveg óvíst hvenær fyrsti almennilegi snjórinn falli í Reykjavík. „Það er möguleiki að það snjói smá í nótt en síðan fer það sennilega yfir í rigningu og verður því líklega bleyta eða krapi í fyrramálið, ekki hvítur snjór. Það er oft þannig hér,“ segir Teitur. Hann bætir við að líklega snjói á höfuðborgarsvæðinu þegar líða taki á veturinn en nú séum við enn á tímabili sem kalla mætti „síðla hausts.“

Teitur bendir vegfarendum að endingu á að fara varlega í hálkunni í vikunni. „Það er hálfgerð hálkutíð þessa vikuna. Þegar veðrið er í kringum frostmark þá þiðnar og frystir á víxl og fólk verður að vera á varðbergi.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert