Kópavogsbúar funda um „Nýju línuna“

Fundað verður um væntanlega samgöngustefnu Kópavogsbæjar með íbúum á sérstökum …
Fundað verður um væntanlega samgöngustefnu Kópavogsbæjar með íbúum á sérstökum íbúafundum í nóvember og desember. Ljósmynd/Kópavogsbær

„Nýja línan“ er heitið á væntanlegri samgöngustefnu Kópavogsbæjar. Fimm íbúafundir verða haldnir af því tilefni í nóvember og desember og fer sá fyrsti fram nú síðdegis í Smáraskóla fyrir íbúa í Smárahverfi.

Í tilkynningu frá bænum kemur fram að auk þess geta íbúar komið ábendingum á framfæri á ábendingavef samgöngustefnunnar og er það í fyrsta sinn sem sú leið er farin við gerð stefnu í Kópavogi. Ábendingar íbúa hvort sem er af fundum eða vef verða hafðar til hliðsjónar við gerð samgöngustefnunnar.

Á íbúafundunum verður kynning á markmiðum samgöngustefnunnar en við gerð hennar verða umhverfisvænar samgöngur hafðar að leiðarljósi. Þá verður óskað eftir tillögum frá íbúum og unnið á þremur starfsstöðum, almenningssamgöngur, umferðaröryggi, gangandi og hjólandi.

„Við höfum góða reynslu af því að vinna með íbúum á íbúafundum en það er skemmtileg nýbreytni að bjóða íbúum upp á fleiri leiðir til að taka þátt í stefnumótun með okkur,“ er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, í tilkynningunni.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs er einn af meðlimum vinnuhóps um nýja samgöngustefnu. „Við leggjum áherslu á umhverfisvænar samgöngur í nýrri samgöngustefnu og viljum stuðla að breyttum ferðavenjum. Það er því mjög mikilvægt að heyra sjónarmið íbúa um ferðavenjur, almenningssamgöngur og umferðaröryggi,” segir Theodóra.

Allir fundir hefjast klukkan 17 og eru haldnir sem hér segir:

7. nóvember í Smáraskóla fyrir íbúa í Smárahverfi.
13. nóvember í Álfhólsskóli fyrir íbúa í Digranesi, það er skólahverfi Álfhóls-, Snælands- og Kópavogsskóla.
23. nóvember í Hörðuvallaskóla. Fyrir íbúa í Vatnsenda, það er skólahverfi Vatnsenda- og Hörðuvallaskóla.
27. nóvember í Lindaskóla fyrir íbúa í Linda- og Salahverfi.
5. desember í safnaðarheimilinu Borgir (safnaðarheimili Kópavogskirkju), fyrir íbúa á Kársnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert