Tengir saman sönginn og lífið

Mikið stendur til í Langholtskirkju um helgina þar sem 150 …
Mikið stendur til í Langholtskirkju um helgina þar sem 150 krakkar í kirkjukórum koma saman. Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, og Sanna Valvanne, kórstjóri frá Finnlandi, stýra dagskránni mbl.is/Árni Sæberg

„Þarna verða rétt um 150 krakkar á aldrinum 9-16 ára. Þetta verður mjög ánægjulegt,“ segir Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar.

Einkar glæsileg sönghátíð barna- og unglingakóra þjóðkirkjunnar fer fram í Langholtskirkju um helgina. Allir þátttakendur koma úr barnakórum þjóðkirkjunnar.

„Það skiptir miklu máli að styðja við og efla barnastarfið í kirkjukórunum. Það er blómlegt víða og sérstaklega í Langholtskirkju. Þar hefur verið unnið áratugastarf undir forystu Jóns Stefánssonar sem því miður er látinn. Langholtskirkja bauð fram húsnæði kirkjunnar svo hægt væri að viðhalda þessari hefð. Það er líka mjög ánægjulegt að nú eru með barnakórar bæði frá Akureyri og Selfossi,“ segir Margrét.

Vel ber í veiði fyrir krakkana á hátíðinni því Sanna Valvanne kórstjóri kemur frá Finnlandi til að vinna með kórunum í spuna, leikrænni tjáningu og samsöng. Sanna Valvanne er uppalin í besta barnakór Finnlands, Tapiolakórnum, og kom sjálf í söngferð til Íslands þegar hún var 12 ára gömul. Hún er nú eftirsótt um allan heim sem kennari og kórstjóri á alþjóðlegum sönghátíðum.

„Hún er alveg yndisleg og börnin hoppa, klappa og stappa með henni. Hjá henni snýst þetta um að söngurinn komi frá hjartanu, sjálfa lífsgleðina. Hún tengir saman sönginn og allt lífið,“ segir Margrét um þennan góða gest.

Þeir kórar sem taka þátt í sönghátíðinni eru Graduale Futuri og elstu árgangar í Kórskóla Langholtskirkju, stjórnandi Rósa Jóhannesdóttir og Sunna Karen Einarsdóttir, Barna- og unglingakór Hallgrímskirkju, stjórnandi Ása Valgerður Sigurðardóttir, Stúlknakór Seljakirkju, stjórnandi Rósalind Gísladóttir, Barna- og unglingakór Selfosskirkju, stjórnandi Edit Molnar, Unglingakór Hafnarfjarðarkirkju, stjórnandi Helga Loftsdóttir, Stúlknakór og eldri barnakór Akureyrarkirkju, stjórnandi Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, Æskulýðskór Glerárkirkju, stjórnandi Margrét Árnadóttir, og Barnakór Bústaðakirkju, stjórnandi Svava Kristín Ingólfsdóttir.

Lokatónleikar hátíðarinnar verða í Langholtskirkju klukkan 13 á sunnudag. Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.

Búin að hlakka til að koma

Sanna Valvanne segist í samtali við Morgunblaðið vera ákaflega glöð að snúa aftur hingað til lands, 31 ári eftir að hún kom hingað fyrst.

„Þetta var 1986 þannig að það er orðið nokkuð síðan en ég man alltaf eftir þessari heimsókn. Ég er búin að hlakka til þess að koma aftur til þessa töfrum gædda lands,“ segir hún.

Þegar Sanna er spurð hvers krakkarnir á sönghátíðinni megi vænta segist hún vilja deila ást sinni á söngnum og tjáningu í gegnum tónlist.

Hún verður hér fram á þriðjudag og vonast til að komast í skoðunarferð um landið. „Ég man enn eftir að hafa séð Vatnajökul og vonast eftir að sjá eitthvað fallegt áður en ég fer.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert