Ekki hlutverk kirkjunnar að kæra til lögreglu

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Séra Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, lagði fram fyrirspurn til biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttir, í fyrirspurnatíma kirkjuþings fyrr í dag, um mál séra Ólafs Jóhannssonar, sóknarprests í Grensáskirkju, sem fimm konur hafa kært til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota.

Hann spurði biskup að því, hví biskupsembættið hefði ekki tafarlaust falið lögreglu rannsókn málsins.

„Það er þolenda kynferðisbrota að taka ákvörðun um að leita til lögreglunnar,“ svaraði biskup og vísaði þar til starfsreglna þjóðkirkjunnar, sem kveða á um að einstaklingur skuli fá aðstoð og fyrirgreiðslu hjá fagráði kirkjunnar, sem aðstoði síðan við að kæra til lögreglu, sé þess óskað.

Sagði fyrirspurnatímann misnotaðan

Séra Geir fór um víðan völl í formála fyrirspurnar sinnar og ræddi meðal annars um fjölmiðlaumfjöllun í máli séra Ólafs. Hann bar að auki fram spurningar til biskups, sem ekki voru sendar skriflega fyrir helgi.

Hann beindi þeirri spurningu til biskups Íslands hvort  hún hefði „staðfesta vitneskju um að presturinn hefði framið kynferðisafbrot, refsiverðan glæp.“ Þeirri spurningu var þó ekki svarað, enda barst hún ekki skriflega fyrir kirkjuþingið, eins og reglur kveða á um.

Geir sagði að ummæli sem biskup hefði látið falla í fjölmiðlum og fleiri sem hefðu komið frá henni um málið, meðal annars í tölvupóstum til séra Ólafs, sem Geir las upp úr í ræðustól, bæru það með sér að í huga biskups léki „enginn vafi á um sekt sóknarprestsins“.

„Ég tel að fyrirspyrjandi hafi misnotað fyrirspurnatímann með sínum langa formála, án þess að láta þann sem á að svara vita af því, ég hef hvergi séð hann,“ sagði biskup um fyrirspurn Geirs Waage.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert