Fyrsti áfangi meðferðarkjarnans stækkar verulega

Svona hugsa arkitektar sér útlit hússins. Torgið er nefnt Sóleyjartorg. …
Svona hugsa arkitektar sér útlit hússins. Torgið er nefnt Sóleyjartorg. Gamli spítalinn til hægri. Tölvuteikning/Corpus 3

Á síðasta fundi borgarráðs var samþykkt að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi Nýs Landspítala við Hringbraut. Nær breytingin til húss sem kallað hefur verið Meðferðarkjarninn.

Meðferðarkjarninn verður stærsta byggingin á Landspítalalóðinni og þar verður hjarta starfseminnar, m.a. með bráðamóttöku, skurðstofum, gjörgæslu og legudeildum. Byggingarmagn meðferðarkjarna í heild sinni verður óbreytt en breytist milli áfanga, þ.e. eykst í fyrsta áfanga.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi, sem samþykkt var í borgarráði í mars 2013, er stærð meðferðarkjarnans alls 68.500 fermetrar, þar af 58.000 fm í 1. áfanga. Síðari áfangi átti að verða 10.000 fm. Byggingin átti að verða 4-6 hæðir með inndregnum tveimur efri hæðum.

Samkvæmt breytingu sem nú hefur verið samþykkt verður fyrsti áfangi stærri en áður var áformað eða ríflega 66.000 fermetrar. Byggingarmagn síðari áfanga minnkar hins vegar í um það bil 2.500 fm.

Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni segir að frekari hönnun meðferðarkjarnans hafi kallað á aukinn sveigjanleika hvað snertir stærð byggingarreits og heildarhæð byggingar.

„Meðferðarkjarni er stækkaður um allt að 6,3 metra til vesturs, allar hæðir, en byggingarreitur síðari áfanga er minnkaður sem því munar og byggingin lækkuð um eina hæð. Uppbroti hússins og inndragi er breytt, m.a. til að fjölga inngörðum og brjóta upp bygginguna í fleiri einingar til að auka enn frekar dagsbirtu, útsýni og aðgengi að þakgörðum, s.s. sunnan útigarðs barna- og kvennadeildar,“ segir í greinargerðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert