Hafa sömu réttindi og Íslendingar

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eru í Brussel í Belgíu.

Körfuboltamenn frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eiga að hafa sömu réttindi til atvinnu á Íslandi og íslenskir leikmenn. Samkvæmt rökstuddu áliti sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi Íslandi í dag er svokölluð „4 + 1 regla“ Körfuknattleikssambands Íslands, sem felur í sér að körfuboltafélagi sé aðeins heimilt að hafa einn erlendan leikmann á vellinum í einu, brot á skuldbindingum ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

„Einn grunnþátta EES-samningsins er sameiginlegi vinnumarkaðurinn, sem gerir Íslendingum kleift að starfa í öðrum Evrópulöndum og njóta réttinda þar. Samningurinn er gagnkvæmur og körfuboltamaður frá öðru EES ríki sem spilar á Íslandi á því að njóta sömu réttinda og íslenskir leikmenn,“ er haft eftir Helgu Jónsdóttur, stjórnarmanni ESA, í fréttatilkynningu. Beiting reglunnar felur í sér mismunun á grundvellis þjóðernis að mati stofnunarinnar.

Fram kemur að ESA hafi sent Íslandi formlegt áminningarbréf fyrr í sumar og gefið íslenskum stjórnvöldum þriggja mánaða frest til þess að koma röksemdum sínum á framfæri. Eftir framlengdan frest hafi enn ekkert svar borist. Rökstudda álitið sem ESA sendi Íslandi sé annað stigið í samningsbrotamáli gegn íslenska ríkinu. Verði ekki brugðist við innan tveggja mánaða geti ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert