Sendiráði Íslands í Mósambík lokað

Ísland mun halda áfram stuðningi við Mósambík í gegnum samstarfsverkefni …
Ísland mun halda áfram stuðningi við Mósambík í gegnum samstarfsverkefni með Barnahjálp SÞ um vatn og salernisaðstöðu og nýtt samstarfsverkefni með UN Women um konur, frið og öryggi. Ljósmynd/Aðsend

Þróunarsamvinna Íslands við Mósambík mun taka breytingum um næstu áramót þegar Mósambík breytist úr tvíhliða samstarfslandi í áhersluland. Sendiráði Íslands í Mapútó verður lokað en þó er ekki gert ráð fyrir umfangsmiklum samdrætti í heildarframlögum til verkefna í landinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Fjármagni sem annars hefði verið varið í rekstur sendiráðs í Mapútó verður varið til annarra verkefna á sviði tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndum eða svæðaverkefna. Markmið breytinganna er að auka skilvirkni og bæta árangur af þróunarframlögum Íslands.“ Þetta kemur einnig fram í tilkynningunni. 

Önnur áherslulönd Íslands eru Palestína og Afganistan. Stuðningi við áherslulönd er beint í gegnum fjölþjóðastofnanir, skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og borgarasamtök og verður sinnt af þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins sem fylgist með að fjármunum sé ráðstafað í samræmi við áætlanir og sinnir reglubundnu eftirliti um framvindu.

Ákvörðun þessi var tekin í kjölfar ítarlegrar greiningarvinnu sem fram fór á árunum 2014-2016 þar sem litið var til ýmissa þátta, með það að augnamiði að þróunarframlög Íslands nýttust sem best. Þar á meðal var litið til umfangs þróunarsamvinnu við landið, fjölda framlagsríkja, mati á mikilvægi þróunarframlaga Íslands og stjórnarfars.

Ísland mun þannig halda áfram stuðningi við Mósambík í gegnum samstarfsverkefni með Barnahjálp SÞ um vatn og salernisaðstöðu og nýtt samstarfsverkefni með UN Women um konur, frið og öryggi. Jafnframt munu sérfræðingar frá Mósambík halda áfram að stunda nám við Jafnréttisskóla Háskóla SÞ og Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ á Íslandi. Því til viðbótar er veittur stuðningur til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, í formi framlaga og útsendingu sérfræðinga á sviði mannúðaraðstoðar, en sem stendur eru tveir íslenskir sérfræðingar að störfum fyrir WFP í Mósambík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka