Ásgrímur Örn Hallgrímsson er einn þeirra sem voru um borð í Bombardier Dash Q-400-flugvél Air Iceland Connect sem lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 6:12 í morgun. Hann segir að lendingin hafi gengið vel og sennilega mýksta lending flugvélar sem hann man eftir.
Mbl.is náði í Ásgrím á Keflavíkurflugvelli í morgun þar sem hann beið eftir að halda ferðalaginu áfram til útlanda.
Flugvélin var að að koma frá Akureyri en flogið er daglega þaðan á Keflavíkurflugvöll. Ásgrímur segir að þegar flugstjórinn var að undirbúa lendingu á flugvellinum hafi komið upp viðvörunarljós um að vinstra hjól hennar væri ekki læst.
„Við fengum því klukkutíma aukaflugferð yfir flugvellinum á meðan verið var að búa vélina undir neyðarlendingu. En sem betur fer hélt hjólið og allt gekk vel,“ segir Ásgrímur í samtali við mbl.is.
Á sama tíma var sett af stað neyðarstig á Keflavíkurflugvelli og allt tiltækt lið kallað út. „En þetta fór allt vel og ég vil hrósa áhöfninni. Bæði flugfreyjum og flugstjóra og flugmanni sem voru mjög dugleg við að upplýsa okkur um hvað væri í gangi og héldu ró sinni allan tímann,“ segir Ásgrímur. Þetta hafi haft þau áhrif að allir farþegarnir héldu ró sinni en ekki voru margir farþegar um borð.
Í aðfluginu var slökkt á vinstri hreyfli vélarinnar og henni lent á öðrum hreyfli á flugbraut. Þaðan var vélin dregin á stæði, segir Ásgrímur Örn.
Helga Björg Jónasdóttir, sem var farþegi í vélinni, segir að 20 til 30 farþegar hafi verið í vélinni og allir haldið ró sinni. Ekki síst vegna þess hvernig áhöfn flugvélarinnar tók á málum. „En ég viðurkenni alveg að það voru fiðrildi í maganum,“ segir Helga í samtali við mbl.is. Flugferðalögum hennar er hvergi nærri lokið í dag þar sem hún á eftir tvær ferðir til viðbótar áður en hún kemst á áfangastað.
Þar sem vélin hringsólaði í langan tíma yfir Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu misstu einhverjir farþegar af millilandaflugi sínu með WOW air og á eftir að koma í ljós hvað verður gert í þeirra málum.