Fundir númer sjö í næstu viku

Sjöundi fundur flugmanna í kjaradeilunni verður í næstu viku.
Sjöundi fundur flugmanna í kjaradeilunni verður í næstu viku. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Tveir fundir hafa verið boðaðir hjá ríkissáttasemjara í næstu viku í kjaradeilum flugmanna og flugvirkja hjá Icelandair. Fundirnir eru þeir sjöundu í röðinni í báðum tilfellum.

Fundur Flugvirkjafélags Íslands og Icelandair verður á þriðjudaginn en fundur Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair verður daginn eftir.

Í þarnæstu viku er svo á dagskránni fundur Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) og ríkisins, að sögn Elísabetar S. Ólafsdóttur, skrifstofustjóra hjá ríkissáttasemjara. 

Kjaradeilu Flugvirkjafélags Íslands við Atlanta hefur jafnframt verið vísað til ríkissáttasemjara. Fundurinn átti að vera í síðustu viku en óskað var eftir því að honum yrði frestað.

Kjarasamningar flugvirkja við Flugfélagið Erni, WOW air og ríkið vegna Samgöngustofu losnuðu einnig 31. október en þeim hefur ekki verið vísað til ríkissáttasemjara.

31. október losnuðu einnig samningar framhaldsskólakennara og ríkisins og 30. nóvember rennur út kjarasamningur grunnskólakennara og sveitarfélaganna.

Hinn 31. desember næstkomandi losna síðan þrír flugmannasamningar, eða við Air Iceland Connect, Bláfugl og Atlanta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert